Notaði Facebook til að koma atkvæðinu heim

Aðalheiður auglýsti á Facebook-síðunni Bunz Trading Zone eftir einhverjum sem …
Aðalheiður auglýsti á Facebook-síðunni Bunz Trading Zone eftir einhverjum sem gæti komið atkvæði hennar til Íslands í tæka tíð fyrir kosningarnar á morgun. Skjáskot/ CBC

Það hefur væntanlega farið framhjá fáum að gengið verður til alþingiskosninga á morgun og leggja sumir ýmislegt á sig til að kjósa.  Tilraun eins íslensks kjósanda til að koma atkvæði sínu til skila vakti athygli kanadísku CBC útvarpsstöðvarinnar í gær.

Aðalheiður Þórhallsdóttir, eða Adeleide Thorhallsdottir eins og CBC kallar hana, auglýsti á kanadísku Facebook-síðunni Bunz Trading Zone á miðvikudag eftir einhverjum sem gæti komið atkvæði hennar til Íslands.

„Stóri kjördagurinn er á næsta leiti, nei ekki sá kjördagur. En kosningar sem eru engu minna mikilvægar fyrir Íslendinga en þær sem verða haldnar hér sunnan landamæranna,“ sagði í frétt vef CBC.

„Ástæðan er sú að á laugardag er möguleiki á að stjórnarandstöðuflokkur, Píratar, geti í fyrsta skipti komist í stjórn. Þó að hún sé langt að heiman, þá er Toronto-listneminn Aðalheiður Þórhallsdóttir mjög áköf um að geta kosið.“

Aðalheiður hafi komist að því að eina leiðin fyrir hana að koma atkvæði sínu frá Kanada til Íslands í tæka tíð væri að höfða til gæsku ókunnugra og því hafi hún auglýst á Bunz Trading Zone í von um að komast í samband við einhvern sem væri á leiðinni til Íslands.

Í auglýsingu sinni segir Aðalheiður að hún og vinkona hennar Nanna Björk Snorradóttir hafi ekki vitað af breyttum reglum varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðslu, sem kveði á um að atkvæðin eru send með pósti til Íslands og það taki að lágmarki 5 daga.

„Ég veit að 1,6 milljónir ferðamanna fara til Íslands árlega og allir sem ég hitti eru alltaf að segja: „Ó, bróðir minn/ég er að fara þangað/mig hefur alltaf langað til að fara. Þannig að plís, ef þú ert á leiðinni til Íslands í dag, fyrramálið eða á föstudag viltu þá hjálpa okkur?“

CBC tók viðtal við Aðalheiði um málið í gær og lék forvitni á að vita hvort hún hefði fundið einhvern til að koma atkvæði sínu heim. „Ég fann stúlku á Bunz Trading Zone. Hún fór í dag og ætlar að skilja umslag með atkvæðinu mínu eftir í afgreiðslu hótelsins, þar sem einhver úr fjölskyldu minni mun sækja það og koma því til skila,“ sagði Aðalheiður sem útskýrði fyrir útvarpsmönnum mikilvægi kosninganna í sínum huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert