Orðljóti forsetinn hættir að blóta

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segist hafa lofað Guði að hann muni bæta orðbragð sitt í framtíðinni en hann er þekktur fyrir að vera orðljótur. Það kemur fram í frétt BBC um málið.

Þegar forsetinn kom aftur til heimalandsins eftir opinbera heimsókn til Japans sagði Duterte að Guð hefði sett honum úrslitakosti í flugvélinni.

„Ég heyrði rödd sem sagði mér að hætta að blóta, annars myndi vélin brotlenda. Ég lofaði því að hætta,“ sagði forsetinn við fréttamenn á flugvellinum við heimkomuna.

Duterte hefur aflað sér vinsælda á heimaslóðum fyrir óheflað málfar, sem oft er beint í átt að Vesturlöndum.

Duterte kallaði meðal annars Barack Obama „hóruson“ sem hann vonaði að færi til helvítis. Auk þess sagði hann Evrópusambandinu að fara til fjandans og líkti sjálfum sér við Hitler en hann hefur drepið mörg þúsund manns í baráttu sinni við eiturlyfjavandann í landinu.

Duterte sagðist hafa lofað Guði að hann myndi ekki nota slanguryrði eða blótsyrði og sagði að „loforð gagnvart Guði væri loforð gagnvart fólkinu í Filippseyjum.“

Hann sagði þó að loforðið væri bundið ákveðnum skilyrðum. Tíminn myndi leiða í ljós hvort hann myndi ekki blóta þegar hann talaði um Bandaríkin og Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert