Segir ákæruna skrípaleik

Geert Wilders formaður hollenska Þjóðarflokksins.
Geert Wilders formaður hollenska Þjóðarflokksins. AFP

Hollenski stjórnmálamaðurinn Geert Wilders, sem er ákærður fyrir kynþáttahatur, ætlar ekki að vera viðstaddur réttarhöldin í næstu viku. Hann segir ákæruna skrípaleik og það sé réttur hans og skylda sem stjórnmálamanns að tala um vandamálin í heimalandi sínu.

„Það er réttur minn og skylda sem stjórnmálamanns að tala um vandamálin í landinu okkar,“ segir Wilders í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag. Wilders er formaður Þjóðarflokksins, sem er þjóðernispopúlistaflokkur.

„Ég hef ekki sagt neitt rangt,“ segir Wilder ennfremur en hann segir að um pólitísk réttarhöld sé að ræða. Réttarhöldin eiga að hefjast á mánudag en Wilders er sakaður um  kynþáttahatur og níð vegna ummæla sinna um Marokkómenn sem búa í Hollandi. Einkum er litið til ummæla hans í mars 2014 þegar sveitarstjórnarkosningar voru í nánd. Þá spurði Wilder stuðningsmenn sína hvort þeir vildu færri eða fleiri Marokkómenn í borginni sem þeir byggju í eða í Hollandi almennt. Þegar múgurinn kallaði til baka: „Færri!, færri!,“ svaraði Wilders með bros á vör: „Við munum sjá til þess.“ 

Í dag segir Wilders aftur á móti: „Þetta eru pólitísk réttarhöld sem ég neita að taka þátt í.“

Að sögn Wilders mun hann eftirláta lögfræðiteymi sínu að annast vörnina og sjálfur muni hann mæta á þingfund í Haag. „Þetta er skrípaleikur að ég þurfi að mæta fyrir dóm vegna ummæla minna um nokkra Marokkómenn,“ sagði Wilders í morgun. „Milljónir hollenskra ríkisborgara  (43%) vilja færri Marokkómenn,“ bætti hann við. 

Wilders segir að þetta sé ekki vegna þess að þeir fyrirlíti alla Marokkóbúa eða vilji að þeir flytji frá Hollandi heldur er þetta vegna þess að fólk er orðið þreytt og búið að fá nóg af óþægindunum og óttanum sem fylgir því að vera með svo marga Marokkómenn í Hollandi.

„Ef það er orðið refsivert að tala um þetta þá er Holland ekki lengur frjálst land heldur einræðisríki,“ segir Wilder. Hann sakar hollenska réttarkerfið um tvískinnung vegna orðbragðs forsætisráðherra landsins, Mark Rutte, í sjónvarpsviðtali nýverið. Þar sagði Rutte að þeir Tyrkir sem ekki væru reiðubúnir til þess að samlagast hollensku samfélagi ættu að snúa aftur til heimalandsins. Wilder segir að réttilega sé Rutte og aðrir sem tala á þennan hátt ekki saksóttir. En sama fólk vilji halda honum þögulum fyrir rétti en hann muni ekki láta það stoppa sig og tjá sig áfram um menn og málefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert