Sjálfstæðið á dagskrá þegar Mosúl fellur

Hermenn veifa í Al-Shura, suður af Mosúl.
Hermenn veifa í Al-Shura, suður af Mosúl. AFP

Stjórnvöld í sjálfsstjórnarhéraðinu Kúrdistan hyggjast blása nýju lífi í baráttu sína fyrir sjálfstæði þegar sókninni að Mosúl lýkur og hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa verið hrakin á brott úr borginni.

„Það er löngu tímabært en um þessar mundir er einbeiting okkar á baráttunni gegn Ríki íslam,“ sagði Nechirvan Barzani, forsætisráðherra Kúrdistan, í samtali við þýska dagblaðið Bild.

„Um leið og Mosúl hefur verið frelsuð munum við funda með félögum okkar í Baghdad og ræða sjálfstæði okkar,“ sagði hann, samkvæmt þýðingu þýska blaðsins.

Barzani sagði að Kúrdar hefðu beðið of lengi. Þeir hefðu staðið í þeirri trú að innrás bandamanna í Írak árið 2003 markaði nýtt upphaf lýðræðislegs ríkis en það hefði ekki orðið.

„Við erum ekki arabar, við erum okkar eigin kúrdíska þjóð. Á einhverjum tímapunkti verður haldinn þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Kúrdistan og þá munum við leyfa fólkinu að ráða.“

Nechirvan Barzani, forsætisráðherra sjálfsstjórnarhéraðs Kúrda.
Nechirvan Barzani, forsætisráðherra sjálfsstjórnarhéraðs Kúrda. AFP

Í febrúar sl. kallaði forseti Kúrdistan, Massoud Barzani, frændi forsætisráðherrans, eftir atkvæðagreiðslu um kúrtískt ríki í norðurhluta Írak. Ákall Barzani jók spennuna milli stjórnvalda sjálfsstjórnarhéraðsins og stjórnvalda í Baghdad.

Hersveitir Kúrda hafa barist við hlið íraska stjórnarhersins í bardögunum umhverfis Mosúl og deila því markmiði að taka borgina úr höndum liðsmanna Ríkis íslam.

Að sögn forsætisráðherrans mun taka þrjá mánuði að ná markmiðinu en hann hefur óskað eftir fleiri vopnum frá Þýskalandi auk fjárhagsstuðnings frá Evrópusambandinu til handa þeim sem neyðast til að flýja heimili sín.

Hann sagði sóknina að Mosúl hafa gengið vel en erfitt væri að spá fyrir bardaganum um borgina sjálfa. Hundruð manna væru reiðubúnir til að fórna sér í sprengjuárásum fyrir hryðjuverkasamtökin, sem hlytu að eiga heilu verksmiðjurnar til að framleiða sprengjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert