Hart sótt að Mosúl

Bardagamenn Hashed al-Shaabi skjóta flaugum að bænum þorpinu Salmani, sunnan …
Bardagamenn Hashed al-Shaabi skjóta flaugum að bænum þorpinu Salmani, sunnan við Mosúl. AFP

Íraskar sérsveitir þokast nú nær austurmörkum borgarinnar Mosúl og herða sóknina gegn liðsmönnum Ríkis íslam sem hafa hana á sínu valdi. Hryðjuverkamennirnir hafa beitt sprengjuvörpum gegn sérsveitunum sem sækja að Mosúl frá bænum Bartalla.

„Markmiðið er að ná aftur Bazwaya og Gogjali, tveimur síðustu þorpunum áður en komið er til Mosúl,“ hefur AFP eftir Muntadhar al-Shimman, ofursta í hryðjuverkasveit íraska hersins. Sveitin hefur hlotið þjálfun Bandaríkjamanna.

„Ef okkur tekst það, þá verðum við aðeins fáeinum hundruðum metra frá Mosúl,“ segir hann.

Að sögn Shimman er talið að þorpin séu allt að því mannlaus.

Tugþúsundir íraskra hermanna sækja nú að Mosúl með stuðningi bandamanna undir forystu Bandaríkjanna, en um er að ræða umfangsmestu hernaðaraðgerðir í Írak í langan tíma.

Borgin er síðasta höfuðvígi Ríkis íslam í Írak, og að aðgerðunum koma einnig hersveitir Kúrda, sem hafa sótt að norður- og austurmörkum Mosúl.

Sóknin að Mosúl er enn á byrjunarstigi, en gert er …
Sóknin að Mosúl er enn á byrjunarstigi, en gert er ráð fyrir að þegar búið er að taka bæi og þorp umhverfis borgina muni íraskar hersveitir hefja umsátur og að lokum innrás. AFP

Undirbúningur, umsátur, innrás

Sunnan við borgina hafa íraskar hersveitir sótt norður og njóta stuðnings stórskotaliðs bandamanna sem hafast við í höfuðstöðvum í Qayyarah. Þessar sveitir eiga stærsta verkið fyrir höndum og eru enn í nokkurri fjarlægð frá Mosúl.

Að bardögunum koma einnig sveitir Hashed al-Shaabi, regnhlífarsamtaka undir forystu varaliðs sjíta sem njóta stuðnings stjórnvalda í Íran. Þau hafa ekki sett stefnuna á Mosúl en hyggjast taka bæinn Tal Afar til vesturs og skera á birgðaleiðir milli Mosúl og Sýrlands.

Forysta sveitanna segir þær ekki munu fara inn í borgina, þar sem meirihluti íbúa er súnní-múslimar, en AFP hefur eftir herforingjum þeirra að þeir vilji taka þátt í bardögum innan borgarmarkanna.

Sóknin að Mosúl er enn á upphafsstigi en þegar búið er að taka bæi og þorp umhverfis borgina munu íraskar hersveitir hefja umsátur um hana og freista þess að skapa öruggar flóttaleiðir fyrir íbúana, áður en ráðist verður til atlögu við liðsmenn Ríkis íslam.

Mannúðarsamtök hafa unnið að því hörðum höndum að undirbúa fjöldaflótta úr borginni en Sameinuðu þjóðirnar telja að allt að milljón gæti þurft að yfirgefa heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert