Milljarðar barna anda að sér menguðu lofti

Mengunarský liggur yfir Nýju-Delí eftir Diwala-hátíðina.
Mengunarský liggur yfir Nýju-Delí eftir Diwala-hátíðina. AFP

Eitt af hverjum sjö börnum í heiminum andar að sér lofti sem er að minnsta kosti sex sinnum mengaðra en alþjóðleg heilbrigðisviðmið gera ráð fyrir samkvæmt nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Verst er ástandið í Suður-Asíu en alls eru 300 milljónir barna sagðar í hættu á alvarlegum heilsuskaða.

„Mengunarvaldar skaða ekki aðeins vaxandi lungu barna. Þeir geta borist úr blóðinu í heilann og valdið varanlegum skemmdum á heila þeirra sem er að þróast og þannig á framtíð þeirra,“ segir Anthony Lake, framkvæmdastjóri UNICEF, sem telur ekkert land geta hunsað loftmengun.

Í skýrslu UNICEF kemur fram að alls andi tveir milljarðar barna að sér menguðu lofti utandyra og um það bil þriðjungur þeirra búi á norðanverðu Indlandi og löndunum í kring. Rúmur hálfur milljarður afrískra barna andi að sér eitruðu lofti og um 450 milljónir til viðbótar í Austur-Asíu, fyrst og fremst í Kína.

Af þeim 300 milljónum sem búa við verstu loftgæðin séu 220 milljónir í Suður-Asíu. Alls látist 600.000 börn yngri en fimm ára af völdum sjúkdóma sem tengjast loftmengun á hverju ári.

Skýrslan var birt í dag einmitt þegar Nýja-Delí, höfuðborg Indlands, liggur undir þykku skýi mengunar eftir hátíðarhöld í tengslum við Diwali-hátíðina. Milljónir landsmanna skutu upp flugeldum í tilefni hennar og hafa borgaryfirvöld greint frá því að loftmengun hafi slegið ný met í kjölfarið.

Þannig náði styrkur mengandi agna í loftinu í einu hverfi í sunnanverðri borginni 1.000 míkrógrömmum á rúmmetra í fyrsta skipti en það er tífalt meira en hámarkið sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin miðar við. Styrkurinn var mestur í gær en í dag var hann enn í 500 míkrógrömmum á rúmmetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert