Nauðgað af lögreglu og hermönnum

Meðal fórnarlamba Boko Haram eru stúlkurnar frá Chibok, sem samtökin …
Meðal fórnarlamba Boko Haram eru stúlkurnar frá Chibok, sem samtökin rændu fyrir tveimur árum. Aðeins fáar hafa komið í leitirnar. AFP

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa sakað opinbera starfsmenn í Nígeríu um að hafa beitt konur og stúlkur sem dvelja í búðum fyrir fórnarlömb Boko Haram kynferðislegu ofbeldi.

Að sögn samtakanna hafa komið upp a.m.k. 43 tilvik í sjö búðum í Maiduguri, miðju uppreisnar hryðjuverkasamtakanna, þar sem konur og stúlkur voru beittar kynferðislegu ofbeldi af leiðtogum búðanna, lögreglu eða hermönnum.

Mausi Segun, sérfræðingur hjá HRW, segir nógu slæmt að konurnar og stúlkurnar fái ekki þann stuðning sem þær þurfa á að halda vegna meðferðar sinnar af hendi Boko Haram, heldur sé til skammar að þeir aðilar sem eiga að vernda þær haldi ofbeldinu áfram.

Muhummadu Buhari, forseti Nígeríu, sagðist í yfirlýsingu hafa áhyggjur af stöðu mála og skipaði lögreglu að hefja umsvifalaust rannsókn.

Fjögur fórnarlambanna tjáðu HRW að þeim hefði verið byrlað ólyfjan og nauðgað, en 37 voru þvingaðar til kynmaka með loforðum um hjónaband eða fjárhagslegan ávinning.

„Margar þeirra sem voru þvingaðar til kynlífs sögðust hafa verið yfirgefnar þegar þær urðu óléttar. Þær og börnin þeirra hafa sætt mismunun, misnotkun, og fordómum af hálfu annarra íbúa búðanna,“ segir í skýrslu samtakanna.

Rætt var við 17 ára stúlku sem var nauðgað af lögreglumanni og varð ólétt í kjölfarið.

„Einn daginn krafist hann kynlífs. Ég neitaði en hann neyddi mig til þess. Það gerðist bara þetta eina skipti, en ég áttaði mig fljótlega á því að ég var ólétt,“ sagði hún. „Þegar ég upplýsti hann um ástand mitt hótaði hann að skjóta mig og drepa ef ég segði einhverjum öðrum frá. Þannig að ég var of hrædd til að klaga hann.“

Að sögn forsvarsmanna HRW viðgengst misnotkun í búðunum m.a. vegna skorts á mat, klæðnaði lyfjum og öðrum nauðsynjum. Konurnar og stúlkurnar neyðast þannig til þess að skipta á kynlífi og því sem þær vantar.

Boko Haram hafa valdið mikilli skelfingu í norðausturhluta Nígeríu en samtökin hafa það að markmiði að stofna íslamskt ríki. Liðsmenn þeirra hafa myrt fleiri en 20.000 og 2,6 milljónir eru taldar hafa flúið heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert