Ráðast inn í Mosúl á næstu klukkustundum

Hermenn stilla upp vopnum sínum við þorp í nágrenni Mosúl.
Hermenn stilla upp vopnum sínum við þorp í nágrenni Mosúl. AFP

Íraskar sérsveitir eru nú komnar að Mosúl og munu fara inn í borgina á næstu klukkustundum. Þetta segir yfirmaður sérsveitarinnar í viðtali við íraska sjónvarpsstöð. Hann segir sveitirnar sækja hratt að borginni. „Ég myndi segja að þetta væri ekki dagaspursmál heldur spurning um klukkustundir. Þá  munu [hersveitirnar] fara inn í borgina og hefja að hreinsa hana af hryðjuverkum,“ segir hershöfðinginn Talib Shegati.

Um 100 þúsund hermenn bandamanna hafa nálgast borgina síðan 17. október. Nú hefur hópurinn skipt sér á þrjá staði í útjaðri hennar. Í tvö ár hafa vígamenn Ríkis íslams ráðið lögum og lofum í Mosúl.

Vígamenn Ríkis íslams eru mun færri en hermenn bandamanna. Þeir hafa þó beitt ýmsum brögðum í orrustunni í þeirri von að halda aftur af herliðinu. Þeir hafa m.a. tekið hópa óbreyttra borgara af lífi, stillt þeim upp sem mannlegum skjöldum og kveikt í eiturefnaverksmiðju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert