Búa við hryllilega martröð

Strákur úr þorpinu Abu Shuwayhah, suður af Mosúl. Hvíti fáninn …
Strákur úr þorpinu Abu Shuwayhah, suður af Mosúl. Hvíti fáninn er tákn friðar. AFP

Hart er barist í úthverfum Mosúl í Írak en her Íraks hefur komist inn fyrir fremstu varnarlínu vígamanna Ríkis íslams í borginni. Ekkert mannfall er meðal íraskra hermanna en fjölmargir vígamenn hafa verið drepnir að sögn talsmanns hersins, Sabah al-Numan, í viðtali við BBC.

Sérsveitir stjórnarhersins í Írak réðust í fyrsta skipti inn í úthverfi Mosúl í gær, tveimur vikum eftir að hann hóf mikla sókn að borginni ásamt herliði Kúrda og vopnuðum hópum síta og súnníta. Fréttaritari BBC, sem fylgist með sókninni, sagði að liðsmenn Ríkis íslams, samtaka íslamista, veittu harða mótspyrnu í borginni.

Hjálparstarfsmenn búa sig undir það versta enda er talið að umsátrið um borgina eigi eftir að taka margar vikur. Þúsundir almennra borgara hafa þegar hrakist að heiman vegna átaka í nágrenni Mosúl og óttast er að sú tala eigi eftir að hækka hratt næstu daga.

„Við búum okkur undir það versta. Líf 1,2 milljóna almennra borgara er í húfi og framtíð Íraks, segir Wolfgang Gressmann, sem starfar hjá NRC, Norwegian Refugee Council, í Írak. 

Hann segir að íbúar Mosúl og nágrennis hafi í tvö og hálft ár búið við hryllilega martröð. Það sé á ábyrgð alþjóðasamfélagsins að breyta því. 

Að sögn Gressmann hafa þúsundir neyðst til þess að flýja heimilis sín, fjölskyldur sundrast og margir almennir borgarar særst og aðrir hafi verið drepnir af leyniskyttum eða í sprengjutilræðum.

Yfir 300 íbúar hafa verið teknir af lífi af vígamönnum Ríkis íslams að undanförnu, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.

AFP

Alls taka um 50.000 manns þátt í sókninni en talið er að 3.000 til 5.000 liðsmenn Ríkis íslams séu enn í Mosúl, síðasta vígi samtakanna í Írak. Allt að 1,5 milljónir manna eru í borginni og rúmlega 17.900 manns hafa flúið þaðan frá því að sóknin hófst fyrir hálfum mánuði. Embættismenn Sameinuðu þjóðanna telja að ef allt fer á versta veg kunni allt að 700.000 manns að flýja frá borginni vegna átakanna.

AFP

Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, sagði að hersveitirnar myndu umkringja borgina og hindra að vígamenn Ríkis íslams kæmust undan. „Þeir geta ekki flúið, annaðhvort falla þeir eða gefast upp,“ sagði hann. Vopnað lið síta, sem njóta stuðnings Írana, sækir fram suðvestan við Mosúl með það að markmiði að loka einu flóttaleið liðsmanna Ríkis íslams til Sýrlands.

Herlið Kúrda er norðan við Mosúl og hefur náð nokkrum bæjum og þorpum á sitt vald. Sveitir stjórnarhers Íraks sækja að austurhluta borgarinnar með aðstoð hermanna og flugvéla frá Bandaríkjunum og fleiri löndum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert