Harðir bardagar í Mosúl

Íraskir hermenn skammt frá Gogjali, austur af Mosúl.
Íraskir hermenn skammt frá Gogjali, austur af Mosúl. AFP

Íraskar sérsveitir eru komnir langt inn í Mosúl og eiga þar í hörðum bardögum við vígamenn Ríkis íslams, sem hafa ráðið yfir borginni í rúm tvö ár.

Írösku hermennirnir börðust í hverfinu Al-Karama, sem er í austurhluta Mosúl, við vígamennina, sem notuðu sprengjur og byssur í árásum sínum, samkvæmt upplýsingum frá hershöfðingja.

Loftárásum bandamanna hefur fjölgað á svæðinu undanfarna tvo daga til að undirbúa framgang íraskra hersveita inn í Mosúl.

Talið er að um 3 til 5 þúsund vígamenn frá Ríki íslams séu dreifðir víðs vegar um borgina, sem er sú næststærsta í Írak.

Yfir ein milljón almennra borgara er talin föst í borginni meðan á átökunum stendur.

Íraskir hermenn.
Íraskir hermenn. AFP

Sjö Írakar drepnir

Ríki íslams drap sjö meðlimi íraskra öryggissveita í átökum suður af Mosúl. Vígamennirnir fóru yfir ána Tígris snemma morguns og börðust við írösku hermennina á svæðinu Sharqat, sem er um 90 kílómetrum frá Mosúl.

Að sögn eins herforingja höfðu liðsmenn Ríkis íslams komið sprengjum fyrir á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert