17 almennir borgarar féllu í sprengjuárás

Liðsmenn Ríkis íslams hafa víða kveikt í olíulindum í nágrenni …
Liðsmenn Ríkis íslams hafa víða kveikt í olíulindum í nágrenni Mósúl í Írak. Svartur eitraður reykur sést hér stíga til himins. AFP

Sautján almennir borgarar féllu þegar vegasprengjur sprungu í Írak. Fólkið var að flýja frá borginni Hawija þar sem liðsmenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki íslams hafa haldið sig.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að nokkrar fjölskyldur hafi verið um borð í flutningabíl þegar tvær sprengjur sprungu. Lögreglumaður er einnig á meðal þeirra sem létust. 

Borgin Hawija er í norðurhluta Íraks, vestur af Kirkuk.

Íraskir stjórnarhermenn hafa haldið áfram að gera árásir á borgina Mósúl, sem er síðasta borgin sem er enn undir stjórn liðsmanna Ríkis íslams. 

Þá hafa íraskar hersveitir einnig gert árásir á Hamam al-Alil, sem er suður af Mósúl. Þar mættu þeir mikilli mótspyrnu en höfðu að lokum sigur og þar tókst þeim að ná borginni á sitt vald og var fáni Íraks dreginn að húni í miðborginni að sögn talsmanna hersins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert