Fundu höfuðlaus lík í fjöldagröf

Lögreglumenn í Írak tilkynntu í dag að þeir hefðu fundið fjöldagröf við landbúnaðarháskóla á svæði sem endurheimt var frá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Fram kemur í frétt AFP að gröfin hafi fundist á svæði sem nefnist Hamam al-Alil og er um 14 kílómetra frá útjaðri borgarinnar Mosúl sem barist hefur verið um að undanförnu. Mosúl er síðasta borgin í Írak sem Ríki íslams hafa á sínu valdi. Samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar eru um eitt hundrað höfuðlaus lík í gröfinni.

Íraksher hefur að undanförnu endurheimt stóran hluta þess landsvæðis í Írak sem samtökin höfðu á valdi sínu. Fjölmargar fjöldagrafir og staðir þar sem fjöldamorð hafa átt sér stað hafa fundist þegar vígamenn Ríkis íslams hafa hörfað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert