Með kóala unga í handtöskunni

Alfred í töskunni sem hann var í þegar lögregla fann …
Alfred í töskunni sem hann var í þegar lögregla fann hann. AFP

Ástralska lögreglan fann kóalaunga í handtösku konu sem stöðvuð var af lögreglu í Brisbane í gær.

Konan, sem er fimmtug að aldri, var stöðvuð af lögreglu út af alls óskyldu máli en lögreglumennirnir ráku upp stór augu þegar konan sagðist vera með kóalaunga í handtöskunni. 

Mynd af Alfred sem lögreglan í Queensland tók.
Mynd af Alfred sem lögreglan í Queensland tók. AFP

Í tilkynningu frá lögreglunni í Queensland kemur fram að þeir hafi ekki trúað eigin augum þegar þeir opnuðu töskuna og sáu ungann. Kóalaunginn, sem virðist vera um sex mánaða gamall, virtist vera við góða heilsu en byrjaður að þorna upp. 

Koala unginn Alfred er frekar sætur.
Koala unginn Alfred er frekar sætur. AFP

Svo segir um kóalaunga á Vísindavefnum:

„Unginn er afar vanþroska þegar hann kemur í heiminn, eins og hjá öðrum pokadýrategundum, og dvelur í allt að 6 mánuði í poka móðurinnar - sem mætti hugsa sér sem einhvers konar framlengingu á meðgöngunni. Kóalaunginn er blindur, hárlaus og vegur aðeins um 1 gramm við got! Hann skríður þó hjálparlaust í poka móður sinnar og kemur sér fyrir til að sjúga spena móðurinnar. 

Við um 7 mánaða aldur yfirgefur unginn pokann og hættir þá að drekka móðurmjólkina en borðar þess í stað seigfljótandi blöndu af laufblöðum eucalyptus-trjánna og móðurmjólkur, sem móðir hans færir honum. Með þessari fæðu berast ýmsar örverur í meltingarveg ungans sem er að finna í fullorðnum dýrum, en þær eru nauðsynlegar til að brjóta niður beðmi trjálaufanna sem hann á eftir að éta alla sína ævi. Á þessu æviskeiði hangir ungviðið oft á baki móður sinnar.“

AFP

Konan segist hafa fundið ungann á laugardagskvöldið og hún hafi geymt hann í töskunni síðan þá. Unginn er kominn í hendur dýraverndunarsamtaka og hefur fengið nafnið Alfred. 

Kóalabirnir eru verndaðir í Ástralíu, en þeir finnast villtir á takmörkuðum svæðum á austurströnd Ástralíu. Flestir eru þeir í Queensland-ríki, um 50 þúsund, en í Nýju Suður-Wales eru um 15 þúsund og svipaðan fjölda er að finna innst í Viktoríuríki.

Konan er aftur á móti í haldi lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert