Hillary með fleiri atkvæði en Trump

Trump getur unað sáttur við niðurstöðuna.
Trump getur unað sáttur við niðurstöðuna. AFP

Donald Trump kann að hafa unnið sögulegan sigur í forsetakosningunum vestanhafs, en Hillary Clinton gæti enn fengið fleiri atkvæði kjósenda.

Þegar 92% atkvæða hafa verið talin hefur Clinton fengið 59.647.621 þeirra, eða 47,7%, en Trump 59.438.580 atkvæði, 47,5%.

Munar litlu í atkvæðatali

Aðeins munar rúmlega 200 þúsund atkvæðum á frambjóðendunum, sem verður að teljast lítill munur miðað við að næstum 120 milljónir atkvæða voru greiddar í kosningunum.

Ef Clinton heldur þessu forskoti út talninguna, verður hún fyrsti forsetaframbjóðandinn síðan Al Gore árið 2000 til að tapa kosningunum með fleiri atkvæði en mótframbjóðandinn.

Fyrir þær kosningar árið 2000, þar sem Gore keppti á móti George W. Bush, höfðu þrír aðrir þurft að sæta sömu örlögum. Andrew Jackson, Samuel Tilden og Grover Cleveland, en allir voru þeir uppi á 19. öld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert