Múslimar uggandi vegna sigurs Trump

Múslimar óttast hvað verður, nú þegar ljóst er að Trump …
Múslimar óttast hvað verður, nú þegar ljóst er að Trump hefur tryggt sér Hvíta húsið. AFP

„Ég er mjög hrædd, verða fleiri stríð? Munu Bandaríkin aftur ráðast gegn múslimaríkjum?“ spurði indónesíski aðgerðasinninn Alijah Diete þegar ljóst varð að Donald Trump yrði næsti forseti Bandaríkjanna.

Múslimar um gjörvalla Asíu áttu erfitt með að átta sig á þróun mála vestanhafs, þar sem kjósendur ákváðu að setja mann í Hvíta húsið sem hefur tekið harkalega afstöðu gegn íslam.

Umdeildustu ummæli Trump féllu í desember sl. þegar hann kallaði eftir því að múslimum yrði bannað að ferðast til Bandaríkjanna í kjölfar árásar í Kaliforníu.

„Bandaríkjamenn hafa enn á ný svikið umheiminn,“ sagði Syed Tashfin Chowdhury, Bangladessi sem á marga nána vini í Bandaríkjunum. Þúsundir Bangladessa fylgdust með úrslitum kosninganna skila sér inn og lýstu yfir hryllingi á Facebook.

Háttsettur pakistanskur embættismaður, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði fréttirnar „skelfilegar“.

„Það eru mikil vonbrigði að sjá Donald Trump vinna af því að Hillary Clinton er góð kona, hún er góð fyrir Pakistan og múslima um allan heim,“ sagði Ishaq Khan, 32 ára. „Hún talaði um heimsfrið en Trump talaði um að berjast gegn múslimum.“

„Múslimar eru útlendingar fyrir honum“

Í Indónesíu, sem er fjölmennasta landið þar sem múslimar eru í meirihluta, eru menn uggandi yfir því hvernig samband ríkisins við Bandaríkin mun þróast, og hvaða áhrif kosning Trump mun hafa á múslima.

„Ég hef miklar áhyggjur af því að sambandið milli Bandaríkjanna og múslimaríkja muni verða stirt á ný,“ sagði aðgerðasinninn Diete, 47 ára.

Nikken Suardini, sem starfar fyrir lögmannsstofu í Jakarta, sagðist uggandi vegna hugmynda Trump um múslimabann. „Ef hann verður forseti mun hann koma í veg fyrir að múslimar komist til Bandaríkjanna; það er ekki sanngjarnt.“

Margir hljóta að spyrja sig að því hvað sigur Trump …
Margir hljóta að spyrja sig að því hvað sigur Trump þýðir fyrir hina ýmsu hópa sem hann hefur talað gegn. AFP

Menn hafa einnig áhyggjur af því að afstaða Trump gegn múslimum muni kynda undir ofstæki á sama tíma og heimurinn er að berjast gegn ógninni sem stafar af íslömskum hryðjuverkasamtökum.

„Þegar Bandaríkin beita hörðu valdi öðlast ofstækið skriðþunga,“ sagði Zuhairi Misrawi, íslamskur fræðamaður hjá indónesísku íslömsku samtökunum Nahdlatul Ulama.

„Þeir sem munu fagna sigri Trump einna mest eru Ríki íslams,“ segir hann og vísar til hryðjuverkasamtakanna sem berjast nú við að halda yfirráðum á svæðum í Írak og Sýrlandi.

Sumir eru bjartsýnni og vonast til þess að tíminn muni leiða í ljós að ummæli Trump hafi verið orðagjálfur í kosningabaráttunni og skili sér ekki í stefnumótun seinna meir.

„Við vonum að ummælum Trump gegn múslimum hafi aðeins verið ætlað að blása byr í kosningabaráttu hans og að hann geri sér grein fyrir að múslimar eru stór hópur í Bandaríkjunum,“ sagði Tahir Ashrafi, klerkur innan pakistönsku ríkisstjórnarinnar.

Aðrir eiga ekki jafn mikla von.

„Stefna hans mun mismuna gegn múslimum,“ sagði Munarman, talsmaður indónesísku harðlínusamtakanna Islamic Defenders' Front. „Múslimar eru útlendingar fyrir honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert