„Bilað“ að segja að Facebook hafi hjálpað Trump

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sagði þá sem teldu samfélagsmiðilinn hafa …
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sagði þá sem teldu samfélagsmiðilinn hafa stuðlað að sigri Trump ekki hafa meðtekið þau skilaboð sem kjósendur hefðu verið að senda. AFP

Samfélagsmiðillinn Facebook sætir nú vaxandi gagnrýni fyrir að falskar fréttir á miðlinum hafi stuðlað að sigri Donalds Trumps, nýkjörins forseta Bandaríkjanna. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, hafnaði slíkum ásökunum á tækniráðstefnunni Techonomy í Kaliforníu í gær og sagði samfélagsmiðilinn ekki ábyrgan.

„Sú hugmynd að falskar fréttir á Facebook hafi haft áhrif á kosningarnar á nokkurn hátt er frekar biluð,“ hefur fréttavefur BBC eftir Zuckerberg. „Ef þið trúið þessu, þá hafið þið ekki meðtekið þau skilaboð sem kjósendur Trumps eru að senda í þessum kosningum.“

Tölulegar upplýsingar hafa sýnt að fölskum fréttum var deilt mun víðar á Facebook, heldur en þeim fréttum sem leiðréttu vitleysurnar sem birtust áður.

Sá hópur fólks, sérstaklega í Bandaríkjunum, sem fær mest af sínum fréttum í gegnum Facebook, fer sístækkandi.

Fréttastreymishluti Facebook er sérstaklega hannaður til að sýna notendum það efni, sem miðillinn telur vekja mestan áhuga hjá viðkomandi og býr þannig til einskonar síu sem styrkir skoðanir viðkomandi án þess að sýna samhliða aðrar skoðanir á málinu.

Fyrr á þessu ári var samfélagsmiðillinn sakaður um að vera á móti Trump og var starfsfólk fréttastreymisins sakað um að velja frekar aðrar og „frjálslyndari“ fréttir til að birtingar hjá notendum.

Forsvarsmenn Facebook höfnuðu ásökununum, en ráku engu að síður starfsfólk fréttastreymisins og létu í kjölfarið reikniforrit samfélagsmiðilsins alfarið sjá um að ákveða hvaða fréttir birtust notendum sem þær vinsælustu.

Ein afleiðing þessa var að fréttir, sem síðar reyndust vera falskar, tóku að birtast hjá fjölda notenda.

„Mitt takmark og það sem skiptir mig máli, er að veita fólki tækifæri til að deila upplýsingum þannig að við getum opnað heiminn og gert hann tengdari. Það krefst þess að við séum með góða útgáfu af fréttastreymi. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna frekar að og við ætlum að halda áfram að bæta fréttastreymið.“

Zuckerberg kvaðst einnig vera bjartsýnn á forsetatíð Trumps og sagði markmið sín varðandi það að bæta heilsu fólks í alþjóðasamfélaginu og að auka tengsl þess, krefðust ekki endilega samstarfs við bandarísk stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert