Dimm stund í sögu Bandaríkjanna

Edward Snowden sést hér ávarpa frumsýningargesti á mynd Olivers Stone, …
Edward Snowden sést hér ávarpa frumsýningargesti á mynd Olivers Stone, Snowden, í Amsterdam í gærkvöldi. AFP

Edward Snowden, sem er landflótta uppljóstrari, segir kjör Donalds Trumps í embætti forseta, dimma stund í sögu Bandaríkjanna. Hann hvetur fólk til þess að vinna saman í því að verja sig fyrir ágengu eftirliti stjórnvalda. 

Hann biður fólk um að óttast ekki Donald Trump heldur eigi fólk, sem vill betri heim, að byggja þann heim upp sjálft. Snowden kom fram á frumsýningu á kvikmynd Olivers Stone um hann í gegnum myndútsendingu í Amsterdam í gærkvöldi. Snowden er í felum í Rússlandi á flótta undan bandarískum yfirvöldum eftir að hann lak upplýsingum úr gögnum bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar sem sýndu meðal annars fram á að stofnunin hleraði síma evrópskra þjóðarleiðtoga. 

Snowden segir að það sem skipti mestu máli sé hvernig hægt verði að vernda réttindi allra, hvar sem er og hvenær sem án tillits til landamæra.

Samhengið sé miklu stærra heldur en einar kosningar eða einn forseti því hættan steðjar að alls staðar.

Til að mynda rússnesku lögin sem tóku gildi fyrr á árinu þar sem netfyrirtæki eru neydd til þess að geyma upplýsingar um notendur og koma þeim til stofnana ríkisins ef þess sé óskað og nýrra laga í Kína varðandi opinbert eftirlit á netinu. „Þetta er dimm stund í sögu þjóðar okkar en þetta eru ekki endalokin,“ segir Snowden. Með samstöðu sé hægt að byggja upp betra samfélag þar sem meira frelsi ríkir og frjálslyndi. Það er allra hagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert