Hengdu upp lík í borginni

Mosúl í Írak.
Mosúl í Írak. AFP

Liðsmenn hryðju­verka­sam­tak­anna Ríkis íslams hafa myrt yfir 60 manns í þessari viku í borginni Mosúl og hengt líkin upp víða um borgina, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. AFP greinir frá. 

Sérsveitir íraska stjórn­ar­hersins halda áfram sókn sinni inn í borgina Mosúl í dag eftir nokkurra daga hlé. Herinn hefur reynt í tæplega mánuð að ná borginni aftur á á vald sitt.   

Vígamenn Ríki íslams saka fórnarlömb sín um að starfa með sérsveit íraska stjórn­ar­hersins. Samtökin sögðust hafa myrt yfir 40 óbreytta borgara í Mosúl og gefið þeim að sök að hafa lekið upplýsingum í íraska stjórnarherinn, að sögn Ravinu Shamdasani, starfsmanns Sameinuðu þjóðanna.      

Krotuðu á líkin

„Lík fórnarlambanna voru hengd upp á áberandi stöðum í Mosúl. Þau voru klædd í appelsínugul föt og búið var að skrifa á þau með rauðum lit orðin „svikari“ og „njósnari íraska stjórnarhersins“,“ bætti hún við. Talið er að þau séu á bilinu 30 til 40.

Að sögn sjónarvotts í borginni Mosúl söfnuðu samtökin saman fólki á götum borgarinnar og tóku af lífi. Fólkið var á öllum aldri og var ýmist hengt eða skotið.   

Sameinuðu þjóðirnar fullyrða að Ríki íslams hafi tekið 27 ára gamlan mann af lífi fyrir þær sakir að hafa talað í síma úti í á götu. Samtökin banna símanotkun í borginni.  

Á miðvikudaginn voru 20 manns teknir af lífi í norðurhluta borgarinnar á hersvæði Ghabat í Mosúl og gefið að sök að leka upplýsingum til íraska stjórnarhersins.  

Lík þeirra voru hengd upp víða í Mosúl. Á líkama þeirra var ritað „teknir af lífi fyrir að leka upplýsingum til íraska stjórnarhersins símleiðis“. Samtökin segja morðin í samræmi við sinn eigin „dómstól“.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert