Skátastarf í æsku stendur með þér

Frá Landsmóti skáta á Akureyri.
Frá Landsmóti skáta á Akureyri. Ljósmynd/Hjálmar S. Brynjólfsson

Fólk sem stundar skátastarf í æsku er við betri andlega heilsu en aðrir. Þetta kemur fram í Breskri rannsókn sem BBC greinir frá. Rannsóknir í Bretlandi á 10.000 einstaklingum um fimmtugt sýna að það eru 15% minni líkur á að þeir sem hafa stundað skátastarf þjáist af kvíða eða andlegri vanlíðan en hinir sem ekki hafa verið í skátunum.

Rannsakendur telja að ástæðan gæti verið sú að þjálfun í úthaldi og lausnamiðuðu starfi sem einkennir skátastarf hafi þessi langvinnu jákvæðu áhrif.

Rannsóknin sem kallast National Child Development Study var unnin á vegum háskólanna í Edinborg og Glasgow. Tölfræðigögn um ævi 10 þúsund einstaklinga sem fæddust í nóvember 1958 víðsvegar í Bretlandi voru rannsökuð. Fjórðungur þátttakenda hafði stundað skátastarf.

Börnin þróa með sér færni til að teysta á eigin getu

Rannsakendur segja niðurstöður benda til þess að verkefni og aðferðir sem hjálpa börnum og ungmennum að þróa með sér kunnáttu og færni til að treysta á eigin getu og hópvinnu, ásamt því að stunda útiveru, skili sér í bættu lífi og andlegri líðan fyrir lífstíð.

Það að stunda skátastarf geti hjálpað til við að byggja upp viðnámsþrótt gagnvart almennri streitu og álagi í lífinu eða eins og rannsakendur nefndu sem möguleika að skátastarf gæti aukið möguleika fólks á að ná lengra í lífinu svo það ætti síður á hættu að upplifa umrædda streitu.

Einn rannsakendanna, prófessor Chris Dibben frá Háskólanum í Edinborg sagði að niðurstöðurnar hefðu komið honum á óvart; að sjá að ávinningur skátastarfs sé sýnilegur svo mörgum árum síðar á lífsleiðinni.

„Við gerum ráð fyrir að sama meginregla gildi um skátastarf í dag svo miðað við þann mikla kostnað sem andleg veikindi kosta einstaklinga og þjóðfélagið allt ætti áherslan á sjálfboðastarf barna og ungmenna eins og boðið er upp á í skátunum að vera mjög æskilegt og eftirsóknarvert,“ segri Dibben. 

Óvæntar aðstæður

Prófessor Richard Mitchell við Háskólann í Glasgow sagði að sami ávinningur væri ekki sýnilegur í öðru sjálfboðastarfi og nefndi hann kirkjustarf sem dæmi. „Skátarnir venjast því að lenda í óvæntum aðstæðum og við teljum að það sé jafnvel mergur málsins.“

Skátahreyfingin er vægst sagt ánægð með niðurstöðuna. 

Rannsóknin birtist fyrst í tímaritinu The Journal of Epidemiology and Community Health.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert