Trump snúi ekki baki við Evrópu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Jens Stoltenberg, varar Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, við því í grein í breska dagblaðinu Observer að gefa bandalagið upp á bátinn. Vestræn ríki stæðu frammi fyrir einhverjum mestu áskorunum sem þau hefðu staðið frammi fyrir lengi og mikilvægt að þau stæðu áfram saman.

Trump sagði í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum að NATO væri úrelt bandalag og bandarísk stjórnvöld myndu hugsa sig tvisvar um áður en þau kæmu öðrum aðildaríkjum NATO til hjálpar yrði ráðist á þau ef þau hefðu ekki greitt það sem þeim bæri til samstarfsins. Stoltenberg segir í greininni að Trump hafi hins vegar nokkuð til síns máls þegar komi að fjárframlögum til NATO. Sum ríki þurfi að leggja meira af mörkum.

Bandaríkin standa í dag undir 70% af útgjöldum NATO en Stoltenberg bendir ennfremur á að forystumenn landsins hafi alltaf litið svo á að það væri í þágu bandarískra hagsmuna að tryggja stöðugleika og öryggi í Evrópu. Auðvelt væri að taka því frelsi, öryggi og velsæld sem ríkt hefði í vestrænum ríkjum sem sjálfsögðum hlut en þörf væri á öflugri forystu Bandaríkjanna í þeim efnum og að aðildarríkin öxluðu sanngjarnan hluta af kostnaðinum.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert