Duterte íhugar að fylgja í fótspor Rússa

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, kallar Alþjóðlega glæpadómstólinn
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, kallar Alþjóðlega glæpadómstólinn "skammlausan níðingssegg". AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hótaði í dag að fylgja í fótspor rússneskra stjórnvalda og segja sig frá Alþjóðlega glæpadómstólnum í Haag. Ástæðan væri sívaxandi gagnrýni erlendra ríkja á aðferðir filippseyskra yfirvalda í baráttu sinni gegn fíkniefnasölum.

Rússar drógu sig í gær með formlegum hætti frá Alþjóðlega glæpadómstólnum, er þeir afnámu undirritun sína úr stofnsáttmála glæpadómstólsins. Rússnesk stjórnvöld segja dómstólinn nú vera „einhliða“ og „óskilvirkan“.

„Þeir [Rússar] kunna að hafa talið Alþjóðlega glæpadómstólinn gagnslausan, þannig að þeir hættu þátttöku sinni,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Duterte. „Það getur verið að ég fylgi bara í fótspor þeirra. Af hverju? Af því að þessir skammlausu yfirgangsseggir níðast bara á litlum ríkjum eins og okkar.“

Filippseyjar eru meðal þeirra 124 þjóðríkja sem eiga aðild að Alþjóðlega glæpadómstólnum, sem er eini varanlegi dómstólinn sem úrskurðar um stríðsglæpi.

Duterte hefur áður hótað því að Filippseyjar segi sig úr Sameinuðu þjóðunum, þar sem stofnunin hafi brugðist því að stöðva stríð sem hafi kostað þúsundir kvenna og barna lífið.

„Ef Kína og Rússland myndu ákveða að stofna nýtt alþjóðasamband þá yrði ég sá fyrsti sem myndi skrá mig,“ bætti hann við.

Duterte var kjörinn forseti Filippseyja í maí á þessu ári með miklum meirihluta atkvæða, eftir að hafa lofað harðri herferð gegn fíkniefnum og að hann skyldi láta drepa tugi þúsunda fíkniefnasala.

Rúmlega 4.000 manns hafa verið drepnir frá því að Duterte tók við embætti í lok júnía. Þar af hafa 1.800 verið skotnir til bana af lögreglu og 2.600 til viðbótar hafa verið myrtir af óþekktum árásarmönnum, samkvæmt tölulegum upplýsingum yfirvalda.

Morðin hafa vakið gagnrýni alþjóða samfélagsins og hafa m.a. bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, lýst yfir áhyggjum af þessari þróun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert