„Hryllilega“ mörg dýr drepin

Vilhjálmur Bretaprins á ráðstefnunni í Hanoi í Víetnam.
Vilhjálmur Bretaprins á ráðstefnunni í Hanoi í Víetnam. AFP

Vilhjálmur Bretaprins segir að „hryllilega“ mörg dýr í útrýmingarhættu séu drepin víða um heim og að ekki sé brugðist nógu hratt við vandamálinu.

Prinsinn er staddur á ráðstefnu í Víetnam þar sem viðskipti tengd dýrum í útrýmingarhættu eru til umræðu. Landið hefur verið gagnrýnt fyrir að ná ekki að stemma stigu við slíkum viðskiptum.

Ríkum elítuhópum hefur fjölgað í Víetnam og fyrir vikið hefur markaður fyrir nashyrningahorn og fílabein stækkað, auk þess sem oft er smyglað í gegnum landið ólöglegum vörum tengdum dýrum frá Afríku til Asíu, aðallega Kína.

Vilhjálmur hefur hvatt stjórnvöld úti um allan heim til að bjarga tegundum í útrýmingarhættu áður en það verður of seint.

„Við vitum að við erum ekki að bregðast nógu hratt við að til að stemma stigu við vandamálinu. Hryllilega mikill fjöldi nashyrninga, fíla, hreisturdýra og ljóna eru drepin,“ sagði Vilhjálmur.

„Þótt við höfum náð framförum er sannleikurinn sá að við erum enn langt á eftir. Sá sem stundar veðmál myndi enn veðja á útrýmingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert