Kynslóð barna hefur horfið, dáið

Barn sem er illa haldið af vannæringu liggur í sjúkrarúmi …
Barn sem er illa haldið af vannæringu liggur í sjúkrarúmi í borginni Maiduguri í Nígeríu. AFP

Þúsundir barna hafa soltið í hel eða látist vegna veikinda í norðausturhluta Nígeríu, á svæði sem er höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í landinu. 

Þetta kemur fram í frétt frá mannúðarsamtökunum Læknum án landamæra. Í fréttinni er vitnað til rannsóknar sem var gerð í tveimur flóttamannabúðum í borginni Maiduguri. Mannúðarsamtökin segja að nú verði stjórnvöld í landinu að vakna til meðvitundar um hið hrikalega ástand og þær hræðilegu aðstæður sem íbúar landshlutans búi við.

Samtökin segja að hörmungarnar kosti hundruð mannslíf daglega. Flestir sem deyja eru ung börn. Nauðsynlegt sé að koma hjálpargögnum á svæðið áður en eldri börn fara einnig að svelta í hel, segir Natalie Roberts, verkefnastjóri Lækna án landamæra, í samtali við AP-fréttastofuna.

Niðurstaða rannsóknanna í flóttamannabúðunum hafa leitt í ljós að svo virðist sem fjórðungur íbúanna undir fimm ára aldri sé hreinlega horfinn, líklega látinn. 

Neyðarástand hefur fyrir löngu skapast. Roberts segir að staðan sé sláandi. „Við sáum aðeins eldri bræður og systur. Engin smábörn voru á mjöðmum eldri systra eins og við var að búast. Engin ungbörn voru bundin á baki mæðranna. Það var eins og þau hefðu horfið,“ segir Roberts.

Móðir liggur á gólfi heilsugæslu í norðurhluta Nígeríu ásamt vannærðri …
Móðir liggur á gólfi heilsugæslu í norðurhluta Nígeríu ásamt vannærðri dóttur sinni. AFP

Læknar án landamæra vöktu fyrst athygli á yfirvofandi hungursneyð á svæðinu í júní. Hins vegar hafa stjórnvöld hingað til þvertekið fyrir að börn svelti eða séu vannærð. Það gerðu þau síðast opinberlega í september um það leyti sem AP-fréttastofan birti fjölda mynda af sveltandi börnum að berjast fyrir lífi sínu á sjúkrastofum Lækna án landamæra í Maiduguri.

„Það sem hefur núna breyst er að tölur okkar hafa verið kannaðar og staðfestar og stjórnvöld hafa nú viðurkennt að þau telji að þetta sé í raun og veru að gerast,“ segir Roberts. 

Sameinuðu þjóðirnar óttast að á þessu ári muni 75 þúsund börn í Nígeríu deyja. Mjög hægt gengur að afla styrkja og stuðnings til að aðstoða fólkið.

Í næsta mánuði verður stór ráðstefna í Genf og er vonast til þess að hún muni verða til þess að opna augu fólks enn frekar fyrir vandanum. „Ef ekki þá mun ekki líða á löngu þar til við verðum í þeirri ömurlegu aðstöðu að þurfa að vísa frá veikum og sveltandi börnum,“ segir í yfirlýsingu frá mannúðarsamtökunum Save the Children.

Móðir á leið með vannært barn sitt að leita aðstoðar …
Móðir á leið með vannært barn sitt að leita aðstoðar á heilsugæslu í Dalaram-héraði í Nígeríu. AFP

Óöldin í Nígeríu hefur neytt um 2,6 milljónir íbúa til að flýja heimili sín. Um milljón börn eru þar á meðal. Þetta ástand, sem varað hefur í sjö ár, hefur skapað hungursneyðina á meðal íbúanna. Hún er því tilkomin af mannavöldum að mestu leyti. Brýr hafa verið brenndar, vatnsbrunnar hafa verið eyðilagðir og heilu bæirnir og þorpin  lögð í rúst. Þá hefur hjálpargögnum verið rænt áður en þau komast í hendur þeirra sem eru í sárustu neyðinni.

Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, setti á fót nefnd í síðasta mánuði sem hefur það hlutverk að tryggja öruggan flutning hjálpargagna til landsvæðanna í norðaustri. Nefndin á einnig að skipuleggja enduruppbyggingu.

Á meðan á öllu þessu stendur halda árásir vígamanna Boko Haram áfram í þorpum jafnt sem borgum landsins.

UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir börn í norðurhluta Nígeríu. Átakið heitir „Ekki horfa...hjálpaðu“ og á vefsíðu UNICEF er hægt að veita söfnuninni lið. Þegar hafa 5.000 manns stutt neyðarsöfnunina hér á landi og níu milljónir safnast.

„Það er frábært að finna þennan stuðning frá Íslandi. Hann skiptir miklu máli. Staðan hér er grafalvarleg, börn eru í lífshættu og við getum hjálpað þeim,“ segir Patrick Rose, upplýsingafulltrúi á svæðisskrifstofu UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert