560 Frakkar til rannsóknar

Lögmannsstofan Mossack Fonseca.
Lögmannsstofan Mossack Fonseca. AFP

Frönsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á mögulegum skattaundanskotum 560 Frakka sem koma fyrir í Panamaskjölunum. Þetta staðfestir talskona fjármálaráðuneytisins. Talið er að rannsóknin taki nokkra mánuði áður en ákvörðun verður tekin um saksókn.

Skattrannsóknardeildir um allan heim hafa eytt mánuðum í að rannsaka milljónir gagna sem var lekið eftir að tölvukerfi lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama var hakkað. Frakkarnir sem eru til rannsóknar eru grunaðir um að hafa skotið fé undan í gegnum félög skráð á Bhamaseyjum og Bresku Jómfrúaeyjunum.

Áður hafði verið upplýst um 724 skattgreiðendur í Frakklandi sem höfðu nýtt sér fyrirtæki á Panama til þess að skjóta undan skatti í heimalandinu. Árið 2013 hóf franska ríkið að bjóða upp á þjónustu (STDR) sem gefur þeim sem eiga reikninga í aflandsskjólum kost á að standa skil á skuldbindingum sínum og greiða skatta án þess að vera saksóttir.

Þeir sem nýttu sér þjónustu Mossack Fonseca eru taldir hafa skotið 4 milljörðum evra undan skatti sem þýðir að ef fullar endurheimtur nást fái franska ríkið 1,4 milljarða evra í ríkiskassann, að sögn Christian Eckert, sem fer með fjármál franska ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert