Bein á víð og dreif og lyktin óbærileg

Íraskur hermaður virðir fyrir sér fjöldagröf í Hamam al-Alil.
Íraskur hermaður virðir fyrir sér fjöldagröf í Hamam al-Alil. AFP

Íraskar hersveitir hafa fundið aðra fjöldagröf skammt frá Mosúl, sem þær telja geyma líkamsleifar fórnarlamba hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam. Teymi frá AFP-fréttaveitunni heimsóttu svæðið, sem er nærri þorpinu Tall Adh-Dhahab.

Lyktin í loftinu var allt að því óbærileg og sjá mátti beinbrot á víð og dreif, ásamt fatnaði; rifnar buxur, höfuðbúnað og sandala. Þá mátti einnig sjá notuð skotfæri liggja á jörðinni.

Gröfina er að finna bak við litla, sönduga hæð en til að komast að henni þarf að fara hjá metraháum haug af jarðvegi.

Að sögn hermanns úr herafla innanríkisráðuneytisins segja íbúar á svæðinu að í gröfinni sé að finna líkamsleifar um 40 manns. Liðsmenn Ríkis íslam eru sagðir hafa notað svæðið fyrir aftökur.

Meirihluti hinna látnu er hermenn og lögreglumenn.

Íraski herinn hefur fundið margar fjöldagrafir á þeim svæðum umhverfis Mosúl sem hafa verið heimt aftur af Ríki íslam. Unnið er að rannsókn fjöldagrafar sem fannst í síðustu viku í bænum Hamam al-Alil, suðvestur af Tll Adh-Dhahab.

Að sögn íbúa í Hamam al-Alil gætu allt að 300 legið í þeirri gröf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert