Kallaði ráðherra hóru

Delmon Haffo.
Delmon Haffo. Skjáskot af Twitter

Starfsmaður Moderate flokksins í Svíþjóð hefur verið rekinn úr starfi eftir að hafa kallað ráðherra í ríkisstjórninni, Anniku Strandhäll, hóru.

Delmon Haffo lét ummælin falla fyrir framan myndavél en gerði sér ekki grein fyrir að verið væri að streyma atvikinu beint á YouTube. Haffo sá um stafræn samskipti hægriflokksins í Stokkhólmi og var ásamt vinnufélögum sínum að prófa upptökuvél á skrifstofu flokksins um hádegið í gær. Þeir gerðu sér hins vegar ekki grein fyrir því að allir gátu hlustað á þá í beinu streymi Moderate flokksins á YouTube.

Ritari flokksins, Tomas Tobé, staðfestir við Aftonbladet að Haffo hafi verið rekinn úr starfi síðdegis í gær.

Haffo heyrist vísa til deilna á samfélagsmiðlum sem hófust með ummælum Strandhäll, sem er félagsmálaráðherra, á Facebook-síðu vinkonu í síðustu viku sem var að grínast með að taka ætti kosningaréttin af körlum í kjölfar kjörs Donalds Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna. Strandhäll segir á Facebook að það hafi hvarflað að henni líka - að afnema kosningarétt karla.

Á YouTube sést Haffo snúa sér að myndavélinni og segja: „Annika Strandhäll, það er ekki í lagi að grínast með kosningarétt karla. Farðu til helvítis, hóran þín.“ Haffo bætir svo um betur og segir um blaðamannafulltrúa félagsmálaráðuneytisins: „Victor Harju er líka hóra.“ Síðan heyrast hlátrasköll félaganna á bak við Haffo. Haffo er ekki aðeins starfsmaður flokksins heldur einnig bæjarfulltrúi hans í Salem.

 Dagens Nyheter hefur eftir formanni  Moderate, Anna Kinberg Batra, að hún fordæmi ummæli starfsmanns flokksins og þau séu algjörlega óviðunandi. „Þetta er ekki fyndið og svona hlutir eiga ekki að gerast. Það er einfaldlega þannig.“

Aftonbladet

DN.se

SVD 

Annika Strandhäll, félagsmálaráðherra Svíþjóðar.
Annika Strandhäll, félagsmálaráðherra Svíþjóðar. Af vef ríkisstjórnar Svíþjóðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert