Neitar að klæða Melaniu Trump

Melania Trump þykir smart en hún mun væntanlega ekki sjást …
Melania Trump þykir smart en hún mun væntanlega ekki sjást í hönnun Theallet. AFP

Fatahönnuðir hafa löngum keppst um að klæða Michelle Obama, forsetafrú Bandaríkjanna, og Hillary Clinton, fyrrverandi forsetafrú, öldungadeildarþingmann og utanríkisráðherra. En nú hefur franskur fatahönnuður stigið fram og þverneitað að klæða forsetafrúna verðandi, Melaniu Trump.

Sophie Theallet, sem starfar í New York, segir ástæðuna pólitískar skoðanir eiginmanns Melaniu og tilvonandi forseta, Donalds Trumps. Hún hvetur aðra fatahönnuði til að feta í sín fótspor.

„Sem manneskja sem fagnar og berst fyrir fjölbreytni, persónufrelsi og virðingu fyrir hverskonar lífsstíl, þá tek ég ekki þátt í að klæða eða koma með nokkrum hætti nálægt næstu forsetafrú,“ segir Theallet í opnu bréfi.

„Ég er afar meðvituð um það að það er ekki skynsamlegt að blanda sér í pólitík. Að því sögðu, sem fjölskyldufyrirtæki, þá er aðalatriðið ekki bara peningar.“

Yfirlýsing Theallet hefur vakið mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum, ekki síst neikvæð.

Fatahönnuðurinn er 52 ára og hefur verið meðal þátttakenda tískuviku New York í mörg ár. Kvenleg hönnun hennar hefur höfðað til Michelle Obama, sem m.a. klæddist nokkrum kjóla Theallet árið 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert