Trump gaf hreyfingunni „líkama“

Hópur fólks mótmælir skipan Steve Bannon sem aðalstjórnmálaráðgjafa Donalds Trump.
Hópur fólks mótmælir skipan Steve Bannon sem aðalstjórnmálaráðgjafa Donalds Trump. AFP

Hvítir þjóðernissinnar, sem telja sér hafa vaxið ásmegin með kjöri Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna, komu saman í Washington-borg í dag. Yfirmaður hugveitu þeirra segir hreyfinguna hafa verið eins og „höfuð án líkama“ áður en Trump kom til sögunnar. Nú sé hún eins og „líkami án höfuðs“.

Hreyfing hvítra þjóðernissinna hefur verið áberandi í umræðunni í kringum forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þessi óformlega hreyfing ungra, hvítra þjóðernissinna sem hafna svonefndri „pólitískri rétthugsun“ hefur verið nefnd alt-right. Einn hugmyndafræðinga hennar er Steve Bannon, fyrrverandi stjórnarformaður Breitbart-vefsíðunnar, sem Trump skipaði í síðustu viku sem aðalstjórnmálaráðgjafa sinn.

Frétt Mbl.is: Sáttasemjarinn og óhemjan

Um þrjú hundruð manns voru saman komnir við viðburð á vegum hugveitunnar National Policy Institute (NPI) sem aðhyllist hugmyndafræði hvítra þjóðernissinna í miðborg Washington-borgar í dag. Bandaríska ríkisútvarpið NPR segir að um það bil helmingur þeirra hafi verið mótmælendur.

Skapa öruggt skjól fyrir „Evrópubúa“

Richard Spencer, yfirmaður NPI, sagði á blaðamannafundi að hann teldi Trump ekki tilheyra alt-right-hreyfingunni en ljóst sé að kjör hans hafi gefið henni nýjan kraft eftir að hafa áður verið á jaðri samfélagsins. Kjör Trump væri fyrsta skrefið í átt að pólitík sem byggi á kynþáttasjálfsmynd fólks.

„Alt-right er hérna, alt-right er ekki að fara neitt, alt-right ætlar að breyta heiminum,“ sagði Spencer við blaðamenn en ljósmyndurum var aðeins veittur takmarkaður aðgangur að fundinum til að ekki væri hægt að bera kennsl á fundarmenn án samþykkis þeirra.

Spencer sagði hreyfinguna jafnframt hafa „andleg tengsl“ við Trump á hátt sem hún hafi ekki við aðra repúblikana og að hann vonaðist til að alt-right-hreyfingin gæti sem hugmyndafræðilegt forystuafl „fullkomnað“ Trump.

Á meðal þeirra stefnumála sem hugveita Spencer berst fyrir er fimmtíu ára bann við innflutningi fólks til Bandaríkjanna. Endanlegi tilgangurinn væri að búa til „öruggt skjól fyrir Evrópubúa“ til að snúa aftur til „hvítra róta“ Bandaríkjanna og vernda hvíta kynstofninn.

Frétt NPR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert