Sorgmæddi ísbjörninn fluttur

Glerbúrið hans Pizza er mjög þröngt og þar verður dýrið …
Glerbúrið hans Pizza er mjög þröngt og þar verður dýrið fyrir stöðugu og miklu áreiti. Ljósmynd/PETA

Ísbjörninn Pizza, sem kallaður er sorgmæddasti ísbjörn heims, verður fluttur úr glerbúri kínverskrar verslunarmiðstöðvar þar sem hiti og hávaði hafa gert hann viti sínu fjær síðustu misseri. Eigendur dýragarðsins í verslunarmiðstöðinni vilja ekki ganga svo langt að segjast vera að bregðast við milljónum athugasemda við aðbúnað dýrsins sem streymt hafa inn hvaðanæva úr heiminum. Þess í stað segja þeir að Pizza, sem er karldýr, verði fluttur tímabundið í dýragarð á meðan endurbætur verða gerðar á búrinu hans. Mögulega hefur það þegar gerst.

Pizza hefur aldrei stigið loppu á snjó eða ís. Eða fundið kaldan norðanvindinn leika um hvítan feldinn. Þess í stað hefur hann eytt dögum sínum í smáu búri í verslunarmiðstöð í borginni Guangzhou, þar sem gestir hópast að búrinu og taka myndir af sér með björninn í bakgrunni.

Dýraverndunarsamtök fagna flutningi bjarnarins en segja að eigendur dýragarðsins, sem er í verslunarmiðstöðinni, gangi ekki nógu langt. 

„Þetta er góð ákvörðun, þetta er rétt ákvörðun fyrir Pizza en ekki endanlegt,“ segir Qin Xiaona, formaður dýraverndunarsamtakanna Capital Animal Welfare Association, í yfirlýsingu. „Tímabundið er ekki nóg. Við vonum að dýragarðurinn læri af þessu og færi Pizza fyrir fullt og allt svo að hann þurfi aldrei aftur að eyða degi í verslunarmiðstöðinni.“

Dýragarðsyfirvöld segjast ætla að stækka rýmið sem Pizza fær um helming. Dýraverndunarsamtök segja það alls ekki nóg. Þau hafa einnig vakið athygli á bágum aðbúnaði annarra dýra garðsins.

Pizza er þriggja ára. Hann var fluttur í dýragarðinn í verslunarmiðstöðinni í janúar. Gestir verslunarmiðstöðvarinnar berja oft á glerveggi búrsins til að reyna að fá viðbrögð frá birninum. Þar inni liggur hann ýmist eins og dauður eða gengur fram og aftur. 

Eigendur garðsins hafa ekki sagt hvenær Pizza fer eða hvert. Og ekki heldur hvenær hann muni snúa aftur.

Frétt New York Times um málið.



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert