Stór jarðskjálfti í Japan

Upptök skjálftans voru rétt fyrir utan norðausturströnd Japans.
Upptök skjálftans voru rétt fyrir utan norðausturströnd Japans. Mynd/usgs.gov

Stór jarðskjálfti skók norðausturhluta Japans í kvöld. Skjálftinn mældist 7,3 stig að stærð. Hefur jarðfræðistofnun landsins lýst yfir að hætta sé á flóðbylgjum í kjölfarið, meðal annars á Fukushima-svæðinu.

Allt að þriggja metra öldur gætu gengið á land í norðausturhluta landsins samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. 

Upptök skjálftans voru aðeins 37 kílómetrum undan strönd Fukushima-héraðsins, en fyrir rúmlega fimm árum varð þar skjálfti upp á 9 stig sem olli miklum flóðbylgjum sem ollu miklum skemmdum á kjarnorkuveri á svæðinu. 

Skjálftinn varð á 11,4 kílómetra dýpi, en í kjölfar hans riðu yfir tveir minni skjálftar. Annar var 5,4 stig og hinn 4,8 stig. Samkvæmt frétt CNN hefur sést til flóðbylgju 22 kílómetra frá landi og samkvæmt fréttamönnum sem eru við strönd Fukushima flæðir nú út frá landi á þessum stað, en slíkt er fyrirboði um flóðbylgjur. 

Hafa fréttastofur í Japan sagt fólki að rýma svæðið og halda hærra upp í landið. 

Verið er að kanna hvort kjarnorkuverið í Fukushima hafi orðið fyrir skemmdum í skjálftanum, en samkvæmt japanska ríkissjónvarpinu NHK var ekki hægt að ná sambandi við kjarnorkuverið stuttu eftir skjálftann. Öllum kjarnorkuverum sem standa nálægt ströndinni hefur verið lokað vegna hættunnar á flóðbylgju og eru nú aðeins tveir kjarnakljúfar starfandi í landinu og eru þeir báðir í suðvesturhluta landsins.

Jarðskjálftar eru algengir í Japan, en um 20% allra þeirra jarðskjálfta sem mælast upp á 6 stig eða meira verða í Japan.

Í mars 2011 varð jarðskjálfti sem mældist 9 stig og er það öflugasti skjálfti sem mælst hefur í Japan svo vitað sé. Honum fylgdu miklar flóðbylgjur sem ollu einu versta kjarnorkuslysi sem orðið hefur frá kjarnorkuslysinu í Tsjernobyl.

Bandarískja jarðfræðistofnunin greindi upprunalega frá því að jarðskjálftinn hefði mælst 7,3, en hefur síðan lækkað styrkleika skjálftans niður í 6,9.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert