Tæp milljón býr við umsátursástand í Sýrlandi

Sýrlenskur björgunarsveitarmaður bjargar konu út úr rústum húss í austurhluta …
Sýrlenskur björgunarsveitarmaður bjargar konu út úr rústum húss í austurhluta Aleppo, sem varð fyrir loftárásum stjórnarhersins. AFP

Fjöldi þeirra sem búa við umsátursástand í Sýrlandi hefur tvöfaldast á þessu ári. Stephen O‘Brien, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að þeim sem búa við umsátursástand hafi fjölgað úr 486.700 í 974.080 á aðeins sex mánuðum.

O'Brien sagði fólk vera „einangrað, hungrað, sprengjum væri varpað á það og því væri neitað um læknis- eða mannúðaraðstoð í því skyni að neyða það til að gefast upp eða flýja,“ að því er segir á fréttavef BBC. Sagði O‘Brien grimmilegum aðferðum vera beitt vísvitandi, sérstaklega af stjórnarher Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

„Þeir sem viðhalda umsátrinu vita nú orðið að Öryggisráðið er að því er virðist ófært eða ófáanlegt til að koma fram sínum vilja eða að samþykkja áætlun til að stöðva þá,“ sagði O‘Brien á fundi með Öryggisráðinu.

Dauði og eyðilegging bíða íbúa Aleppo

Meðal nýrra staða þar sem umsátursástand ríkir eru úthverfin Jobar, Hajar al-Aswad og Khan al-Shih í Damaskus, sem og nokkur svæði í Ghouta-landbúnaðarhéraðinu.

O'Brien sagðist vera „að tapa sér“ vegna ástandsins í Aleppo, þar sem algjör „útrýming“ virðist bíða þeirra 275.000 sem búa við umsátursástand í austurhluta borgarinnar, sem er á valdi uppreisnarmanna.

Stephen O'Brien gagnrýndi aðgerðaleysi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands …
Stephen O'Brien gagnrýndi aðgerðaleysi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands og sagði algjöra útrýmingu bíða íbúa austurhluta Aleppo. AFP

Vopnahlé sem Rússar og sýrlenski stjórnarherinn efndu einhliða til 18. október, hefði veitt vonarneista. Sá neisti hefði hins vegar slokknað á ný þegar uppreisnarmenn gerðu árásir á byggð almennra borgara í vesturhluta borgarinnar sem er á valdi stjórnarhersins og þegar stjórnaherinn hóf á ný að gera loftárásir á austurhluta borgarinnar síðasta þriðjudag. „Dauði og eyðilegging hefði þá á ný beðið borgarinnar og íbúa hennar.“

Allar sjúkrastofnanir „sprengdar í tætlur“

„Undanfarna daga hafa fréttir gefið til kynna að hundruð almennra borgara hafi verið drepin, særst eða hafi með öðrum hætti orðið fyrir áhrifum af vægðarlausum árásum á austurhluta Aleppo.“

Varla væri lengur að finna nokkurt sjúkrahús sem enn gæti starfað í austurhluta borgarinnar, þar sem allar sjúkrastofnanir væru „sprengdar í tætlur“.

Uppreisnarmenn hafi orðið 60 manns að bana og sært 350 manns í vesturhluta borgarinnar með sprengivörpum og loftskeytum það sem af er þessum mánuði. Þá dóu átta börn í vesturhlutanum er skóli varð fyrir árás í gær.

 „Ég skal vera alveg skýr með að við erum ekki bara að horfa á endurupptöku átaka í Aleppo. Þetta er ekki sama ástand og áður,“ sagði O‘Brien.

Enn einn lágpunkturinn

„Það látlausa og ómannúðlega áhlaup sem hefur verið gert á almenna borgara síðustu vikuna er enn einn lágpunkturinn og er jafnsorglegur og hefði verið hægt að forðast hann.“

Hann varaði þá við að ástand mannúðarmála í austurhluta Aleppo hefði farið frá því að vera „hræðilegt“ yfir í að vera „hryllilegt“ og nú væri það varla „lífvænlegt“.

Síðustu matarskömmtum sem Sameinuð þjóðirnar náðu að koma til íbúa austurhlutans áður en lokað var á allt aðgengi í júlí, var deilt út 13. nóvember. Mjög lítið er eftir af mat í borgarhlutanum og hefur verðlag hækkað verulega.

Sýrlandsstjórn greindi frá því á sunnudag að hún hefði hafnað þeirri tillögu Staffan de Mistura, sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, að austurhluti Aleppo yrði gerður að sjálfstjórnarsvæði ef uppreisnarmenn með tengsl við al-Qaeda-samtökin drægju sig til baka og hættu átökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert