Hreinsanir halda áfram í Tyrklandi

Ljósmynd tekin fyrr í mánuðinum, þegar fólk safnaðist saman til …
Ljósmynd tekin fyrr í mánuðinum, þegar fólk safnaðist saman til að minnast stofnanda Tyrklands, Mustafa Kemal Ataturk. Stofnaði hann Tyrkland sem veraldlegt lýðveldi árið 1923, reist á rústum Ottómanaveldisins. Trúin skipar þó sífellt meiri sess í stjórnskipan landsins. AFP

Fleiri en 15 þúsund opinberum starfsmönnum hefur verið sagt upp í Tyrklandi í dag, þar á meðal lögreglufulltrúum og fjölda úr starfsliði hersins, í nýjasta áfanga hreinsunar sem hófst í kjölfar misheppnaðs valdaráns í júlí.

Rúmlega hundrað þúsund manns sem starfað höfðu innan hersins, lögreglu, dómsvaldsins og menntakerfisins hafa ýmist verið handteknir, þeim vikið frá tímabundið eða reknir úr störfum sínum.

Í síðustu tilskipun ríkisstjórnarinnar, sem birt var í dag, er 7.586 starfsmönnum lögreglu sagt upp, þar á meðal lögreglustjórum. 1.956 hermenn og starfsmenn flug- og sjóhersins missa einnig störf sín, auk 403 úr öryggissveitum landsins.

3.000 embættismenn innanríkisráðuneytisins hafa þá verið látnir fara, en samtals eru það 15.726 manns sem missa störf sín í dag.

Erdogan Tyrklandsforseti er umdeildur víða.
Erdogan Tyrklandsforseti er umdeildur víða. AFP

Lögmætar í skjóli neyðarástands

Uppsagnirnar njóta lögmætis í skjóli þess opinbera neyðarástands sem enn er við lýði frá því hið örlagaríka valdarán misheppnaðist í júlí. Neyðarástandið var framlengt um þrjá mánuði í október og varir því að minnsta kosti fram á næsta ár.

Gagnrýnendur hafa sagt þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar fara langt umfram það sem nauðsynlegt geti talist, og að þær beinist í raun að öllum þeim sem dirfst hafa til að sýna forsetanum, Recep Tayyip Erdogan, nokkra andstöðu.

Stjórnvöld í höfuðborginni Ankara hafa sakað predikarann Fethullah Gulen, sem býr í Bandaríkjunum, um að hafa staðið á bak við valdaránstilraunina. Segja þau stöðuga sókn nauðsynlega til að uppræta áhrif hans á almenning í Tyrklandi. Gulen hefur neitað allri sök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert