Lykilorð ráðamanna á netinu

Sænska ríkissjónvarpið komst yfir 10 milljónir lykilorða sænskra notenda sem …
Sænska ríkissjónvarpið komst yfir 10 milljónir lykilorða sænskra notenda sem voru í dreifingu á netinu. mynd/Brynjar Gunnarsson

Lykilorð forsætisráðherra Svíþjóðar og nokkurra annarra ráðherra eru meðal lykilorða sem hakkarar hafa komist yfir og er hægt að finna í gögnum sem sænska ríkissjónvarpið hefur komist yfir. Þá eru lykilorð fjölda einstaklinga sem tengjast flokkum landsins einnig í gögnunum. Samtals er um að ræða 10 milljónir lykilorða sem ríkissjónvarpið segir að séu í dreifingu á netinu.

Ríkissjónvarpið birti í dag upplýsingar um lykilorðin sem fyrrverandi „ofurhakkari“ fann á netinu og aðstoði ríkissjónvarpið að finna. Um er að ræða upplýsingar um tölvupóstföng og lykilorð fólks að þjónustunum LinkedIn, Dropbox, Yahoo og Biljettnu. Segir í frétt ríkissjónvarpsins að oft á tíðum noti fólk sama lykilorðið á fleiri en einum stað og því geti leki á einum aðgangi orsakað aðgengi hakkara að fleiri þjónustum.

Ríkissjónvarpið opnaði í dag gagnagrunn þar sem fólk gat flett upp tölvupóstfanginu sínu og athugað hvort það væri meðal þeirra 10 milljóna sænskra póstfanga sem höfðu ratað til hakkara og voru aðgengileg á netinu.

Meðal netfanga sem finna má í gögnunum er netfang Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Gustav Fridolin menntamálaráðherra, Morgan Johansson dómsmálaráðherra og Anders Ygeman innanríkisráðherra.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þarf væntanlega að breyta um lykilorð …
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þarf væntanlega að breyta um lykilorð sem fyrst til að vera öruggur um að fólk komist ekki yfir persónuleg gögn hans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert