Trump hyggst rifta fríverslunarsamkomulagi

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hyggst rifta fríverslunarsamningi Bandaríkjanna og ellefu landa við Kyrrahaf (TPP) sem var undirritaður í febrúar á þessu ári. Þetta ætlar hann að gera á fyrsta degi sínum í Hvíta húsinu. 

Trump lét ummælin falla í meðfylgjandi myndskeiði þar sem hann útskýrir hvað hann muni taka sér fyrir hendur þegar hann tekur formlega við forsetaembættinu í janúar á næsta ári. 

Sem fyrr segir, eiga alls 12 ríki aðild að TPP-samkomulaginu, sem stendur fyrir Trans-Pacific Partnership, en það nær til um 40% hagkerfa heimsins, að því er fram kemur í frétt á vef BBC. Auk Bandaríkjanna eiga meðal annars Japan, Malasía, Ástralía, Nýja-Sjáland, Kanada og Mexíkó aðild að samkomulaginu. Samkomulagið náðist á milli ríkjanna í fyrra en ekki er búið að staðfesta það með formlegum hætti. Markmið þess er að efla viðskiptatengsl ríkjanna og auka hagvöxt. Þeir sem hafa gagnrýnt samninginn segja að hann hafi verið gerður á bak við luktar dyr og að hann sé einkar hagstæður fyrir stórfyrirtæki. 

Trump hyggst enn fremur draga úr núverandi takmörkunum á kolaframleiðslu í Bandaríkjunum, sem hann segir að núverandi skilyrði um komi í veg fyrir atvinnusköpun í greininni. Þá hyggst hann koma í veg fyrir að reglur um vegabréfsáritanir verði misnotaðar. 

Fram kemur í frétt BBC, að Trump hafi ekkert minnst á að gera út af við núverandi stefnu Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, í heilbrigðismálum, sem nefnist Obamacare, eða hugmyndir um að reisa vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þetta eru tvö mál sem Trump sagði í kosningabaráttunni að hann myndi ganga í á sínum fyrsta degi í embætti. 

Donald Trump hefur birt lista yfir þau verkefni sem hann …
Donald Trump hefur birt lista yfir þau verkefni sem hann hyggst taka sér fyrir hendur þegar hann mætir í Hvíta húsið sem forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert