Pandahúnar nefndir við hátíðlega athöfn

Tveir pandahúnar sem fæddust í dýragarðinum í Vín í Austurríki voru nefndir við hátíðlega athöfn í dýragarðinum í dag, 100 dögum eftir fæðingu sína. Húnarnir tveir hlutu nöfnin Fu Feng og Fu Ban.

Húnarnir fengu hins vegar ekki að vera viðstaddir nafnagjöfina, en kínverski sendiherrann í Austurríki var meðal gesta. Húnarnir munu nefnilega ekki koma almenningi fyrir sjónir fyrr en undir árslok.

„Nöfnin færa þeim mikla gæfu og það er gott tákn að tvíburar fæddust á 45. afmælisári stjórnmálasamskipta Austurríkis og Kína,“ hefur AFP-fréttastofan eftir kínverska sendiherranum Li Xiaosi.

Birnan fékk nafnið Fu Feng sem þýðir Hamingjusamur fönix og valdi dýragarðurinn það nafn á hana. Bróðir hennar fékk síðan nafnið Fu Ban, sem þýðir Hamingjusamur félagi og hlaut hann það eftir að 12.000 tóku þátt í netkosningu um nafngiftina .

Ákveðið var að nefna pandahúnana ekki fyrr en þeir yrðu orðnir 100 daga, þar sem um það bil helmingur allra pandahúna deyr ungur. Í dag vega þau Fu Feng og Fu Ban fimm og sex kíló hvort og hafa því braggast vel frá fæðingu, þegar þau vógu 100 grömm.

Pönduhúnarnir verða sýndir almenningi í lok þessa árs.
Pönduhúnarnir verða sýndir almenningi í lok þessa árs. Skjáskot/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert