77 farast í bílasprengju í Írak

Talið er að þeir sem fórust í árásinni hafi allir …
Talið er að þeir sem fórust í árásinni hafi allir verið um borð í fjórum rútum sem höfðu stoppað við bensínstöðina til að fylla á eldsneyti. Miklar skemmdir eru á vettvangi. AFP

77 manns hið minnsta fórust í bílasprengju í nágrenni Bagdad, höfuðborgar Írak, í dag. Flestir hinna látnu voru pílagrímar úr röðum síjamúslima frá Íran og Afganistan, sem voru á leið heim frá hinni helgu borg Kerbala. Fréttavefur BBC segir 40 manns til viðbótar hafa særst í árásinni.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á sprengingunni, sem varð er bíll sprakk við bensínstöð og veitingastað í nágrenni Hilla, sem er um 100 km suður af Bagdad, en mikill fjöldi rútubifreiða hafði stoppað þar á leið sinni frá Karbala.

BBC hefur eftir lögreglu á staðnum að þeir sem fórust hafi verið um borð í fjórum rútum sem var verið að setja á eldsneyti. Pallbíl hlöðnum ammoníaki og öðrum sprengifimum efnum, auk eldsneytis, hafi verið lagt við bensínstöðina og olli miklu tjóni er hann var sprengdur í loft upp.

Myndir frá vettvangi sýna bílflök og þykkan, svartan reyk sem liggur yfir svæðinu. Veitingastaðurinn og bensínstöðin virðast einnig hafa eyðilagst og líkamsleifar þeirra sem fórust lágu á víð og dreif í nágrenninu.

Milljónir pílagríma úr röðum síjamúslima gera sér ferð til Karabala í tilefni af Arbaeen, sem markar lok 40 daga sorgartímabils sem haldið er árlega í minningu Hússeins, barnabarns spámannsins Múhameðs, sem féll í bardaga um borgina á sjöundu öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert