Ekki dauður heldur sprelllifandi

Neil Prakash.
Neil Prakash. Skjáskot af BBC

Ástralskur vígamaður, Neil Prakash, sem talið var að væri látinn, er sprelllifandi og í haldi yfirvalda í Tyrklandi.

Ríkisstjórn Ástralíu sagði í maí að Neil Prakash, sem starfaði með vígasamtökunum Ríki íslams, hefði látist í loftárás Bandaríkjahers á Mosúl í Írak. Heimildir New York Times herma hins vegar að hann sé enn á lífi og að Prakash hafi verið handtekinn þegar hann reyndi að komast til Tyrklands frá Sýrlandi með falsaða pappíra fyrir nokkrum vikum. Áströlsk yfirvöld segjast ekki geta tjáð sig um málið, þar sem það tengist öryggismálum landsins. Fréttir af einhverju sem gerist á stríðshrjáðum svæðum geti verið erfitt að sannreyna. 

Prakash, sem einnig er þekktur undir nafninu Khaled al-Cambodi, hefur verið tengdur við hryðjuverkaáform í Ástralíu og komið fram í áróðursmyndskeiðum. Hann er sakaður um að hafa fengið fjölmarga Ástrala, karla, konur og börn, til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök.

Prakash, sem er 23 ára gamall, er frá Melbourne en ættaður frá Kambódíu og Fídjíeyjum. Hann skipti um trú árið 2012 en áður en hann tók upp íslamtrú var hann búddisti. Eftir trúskiptin fór hann að sækja Al-Furqan íslam miðstöðina í Melbourne. Hann fór frá Ástralíu til Sýrlands árið 2013 og breytti nafni sínu í Abu Khaled al-Cambodi. Þá var hann settur á lista hjá bandarískum yfirvöldum með nöfnum hættulegra hryðjuverkamanna. Paul Maley, sem er fréttastjóri The Australian á sviði þjóðaröryggismála, segir að Prakash hafi verið félagi í skipulögðum glæpasamtökum og eiturlyfjafíkill. Eins hafi hann reynt fyrir sér sem listamaður við lítinn orðstír.

Frétt ABC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert