Allir starfmenn fá fræðslu um LGBT

AFP

Sænskt bæjarfélag hefur ákveðið að allir starfsmenn þess, 5.700 talsins, sæki námskeið þar sem fjallað er um málefni tengd samkynhneigðum, tví­kyn­hneigðum og trans­fólki.

Með þessu verður Kalskrona það sveitarfélag í Svíþjóð sem stendur fremst í því að koma í veg fyrir að fólki sé mismunað vegna kynhneigðar í almannaþjónustu.

Um er að ræða námskeið á netinu og vinnustaðafundi þar sem málefni LGBT-fólks verða rædd, segir í frétt Blekinge Läns Tidning.

Börje Dovstad, bæjarfulltrúi í Kalskorna, segir að það sé gríðarlega mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því sem hefur áhrif á lífsgæði LGBT-fólks. Hann segir að bæjarstjórnin vilji með þessu framtaki sýna og sanna hversu mikilvægur hópur þetta er. Auka þurfi skilning meðal bæjarbúa og að það sé ljóst að kynhneigð skipti ekki máli þegar kemur að búsetu í Kalskrona.

Þegar hafa starfsmenn í öldrunar- og skólaheilsugæslu farið á námskeið á vegum réttindasamtaka samkynhneigðra í Svíþjóð, RFSL. Það er mun viðameira námskeið og ekki ætlast til þess að aðrir starfsmenn sæki slíkt námskeið. Ekki kemur fram hvort bæjarfulltrúarnir sjálfir fari á námskeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert