Sagan mun dæma Castro segir Obama

Sagan mun dæma um áhrif Fidel Castró á Kúbu og heiminn, segir Barac Obama, forseti Bandaríkjanna, en hann er einn fjölmargra þjóðarleiðtoga sem hafa tjáð sig um Castro í dag. Tilkynnt var um andlát forseta Kúbu í nótt. Castro hafði glímt við veikindi um árabil. 

Bandaríkin endurnýjuðu stjórnmálasamband sitt við Kúbu í fyrra og var sendiráð Bandaríkjanna opnað í Havana og kúbverskt í Washington. Um svipað leyti var Kúba tekin af lista yfir ríki sem studdu hryðju­verk­a­starf­semi. Þar með lauk yfir hálfrar aldar köldu stríði milli ríkjanna og heimsótti Obama Kúbu síðan heim í mars. Obama varð þá fyrsti for­seti Banda­ríkj­anna í 88 ár til að heim­sækja Kúbu. 

Obama segir að í forsetatíð hans hafi bandarísk stjórnvöld sem kúbversk unnið hart að því að bæta samskipti ríkjanna og horft þar til framtíðar sem vinveitt ríki en ekki óvini. Ríkin tvö eigi margt sameiginlegt sem nágrannar og vinir.

Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var ekkert að flækja hlutina í færslu á Twitter: Fidel Castro er dauður!

Trump tjáði sig síðan í dag frekar um Castro og sagði hann vera hrottalegan einræðisherra sem kúgaði þjóð sína í sex áratugi.

Fyrir nokkrum mánuðum hótaði Trump því að slíta sambandinu við Kúbu á nýjan leik nema stjórn Castro myndi fara að kröfum Bandaríkjanna, svo sem varðandi stjórnmála- og trúfrelsi og að pólitískir fangar yrðu látnir lausir úr haldi. 

Mikhaíl Gorbatsjev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, segir að Fídel Castro hafi staðið í hárinu á bandarískum yfirvöldum og styrkt stöðu lands síns þegar viðskiptabanni var komið á af hálfu Bandaríkjanna. 

Forseti Kína, XI JinPing, segir að Kínverska þjóðin hafi misst góðan og sannan félaga. Félagi Castro muni lifa að einlífu.

 Argentínski knattspyrnumaðurinn, Diego Maradona, segir dauða Castros miklir sorgartíðindi en Maradonna dvaldi löngum á Kúbu og var mikill vinur Castro. „Ég er mjög sorgmæddur en hann var mér eins og annar faðir.“ 

Forseti Suður-Afríku, Jacob Zuma, segir að margt sé líkt með baráttu Suður-Afríkubúa gegn aðskilnaðarstefnunni og því sem Castro gerði fyrir Kúbu. Castro hafi hvatt íbúa Kúbu til þess að styðja baráttu svartra í S-Afríku. Samstaða og vinátta milli S-Afríku og Kúbu sé mikilvæg og verði að lifa áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert