Hjónaband undir fölsku yfirskini

AFP

Ungar konur eru beittar miklum þrýstingi að ganga í hjónaband í Kína. Hvað gerir samkynhneigð kona undir slíkum kringumstæðum? Ou Xiaobal er 32 ára og býr í Peking. Hún lýsir því fyrir BBC hvernig hún hafi gengið í hjónaband til þess að gleðja fjölskyldu sína og tryggja um leið samband sitt við unnustu sína.

Ou gekk í hjónaband með karlmanni árið 2012 en á þeim tíma bjó hún með unnustu sinni í Peking og lifði hamingjusömu lífi með henni. En vegna þrýstings frá foreldrum, sem bjuggu í Dalian, ákvað hún að ganga í hjónaband. Hún segir að með þessu hafi hún viljað tryggja sér og unnustu sinni öryggi. Þær hefðu í raun betur átt að vera til aðeins fyrr, þegar samkynhneigð var ekki mikið í umræðunni í Kína og því fáir sem veltu kynhneigð fólks fyrir sér.

Að sögn Ou versnaði ástandið þegar faðir hennar lést og móðir hennar fór að koma oftar í heimsókn til hennar og dvelja mánuðum saman. Hún segist hafa séð fram á að ekki væri önnur lausn í boði en að giftast karli. Hún leitaði til vina og í gegnum einn þeirra kynntist hún tilvonandi eiginmanni. 

Ou segir hann frábæran mann og líkt og hún þá hafði hann búið árum saman með unnusta sínum án þess að koma út úr skápnum opinberlega. Makar beggja voru voru ánægð með þessa niðurstöðu enda erfið staða sem þau voru öll fjögur í. 

Hún segir að í fyrstu hafi þau hjónin komið saman í heimsóknir til fjölskyldu hennar á hátíðum, svo sem vorhátíðinni og hún fór með honum í samkomur tengdar starfi hans. Undanfarin tvö ár hafi þau hins vegar fengið frið fyrir fólki sem telur að velferð þeirra sé borgið undir hlýrri hjónasæng. 

„Ég bý með unnustu minni og hann býr með unnusta sínum. Við förum fjögur saman út að borða reglulega og erum góðir vinir,“ segir Ou í samtali við BBC en um er að ræða umfjöllun undir kjörorðinu 100 Women 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert