Sea Shepherd-liði dæmdur fyrir dýraníð

Grindardráp Færeyinga er umdeilt. Hvalirnir eru reknir inn í víkur …
Grindardráp Færeyinga er umdeilt. Hvalirnir eru reknir inn í víkur þar sem þeim er slátrað í stórum stíl.

Dómstóll í Færeyjum hefur dæmt skipstjóra náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd fyrir brot á dýraverndarlögum með því að hafa valdið hópi höfrunga „óþarfa þjáningum“. Samtökin telja dóminn sigur fyrir höfin því hann setji fordæmi sem nái yfir umdeild grindardráp Færeyinga.

Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að Jessie Treverton, breskur skipstjóri, sem reyndi ásamt tveimur meðlimum Sea Shepard að smala hóp um tvöhundruð höfrunga frá einni af víkunum þar sem grindardrápin eru stunduð á hraðbát í september árið 2014. Danska strandgæslan stöðvaði hins vegar för kvennanna þriggja sem færeyska lögreglan handtók í kjölfarið.

Frétt Mbl.is: Hvalaverndunarsinnar fundnir sekir

Treverton hefur nú verið fundin sek um að hafa valdið höfrungunum óþarfa þjáningum. Var hún dæmd til þess að greiða 5.500 danskar krónur í sekt.

„Ég samþykki dóm dómstólsins um að það sé andstætt dýraverndarlögum að smala hóp höfrunga til öryggis með ánægju vegna þess að lögin ná yfir mig þá hljóta þau einnig að ná yfir Færeyinga. Lagalegt fordæmi hefur verið sett, það er andstætt færeyskum lögum að smala höfrungum. Þetta er sigur fyrir höfin,“ segir Treverton í tilkynningu Sea Shepard.

Í sama streng tekur Geert Vons sem stjórnar herferð samtakanna gegn grindardrápi Færeyinga. Dómurinn staðfesti að það sé ólöglegt samkvæmt færeyskum lögum að smala höfrungum á litlum bátum. Það sé nákvæmlega það sem Færeyingar geri til að smala grindhvölum inn í víkur til að slátra þeim.

Treverton hafi þegar afhent lögreglunni fjölda myndbandsupptaka sem samtökin telja sannanir um fjölda lögbrota af þessu tagi af hálfu þátttakenda í grindardrápinu í ár.

Frétt Mbl.is: Magnað myndskeið af grindardrápi í Færeyjum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert