16 þúsund hafa flúið Aleppo

Sýrlendingar á leið í flóttamannabúðir í dag.
Sýrlendingar á leið í flóttamannabúðir í dag. AFP

„Um það bil sextán þúsund íbúar úr hverfum í austurhluta Aleppo-borgar eru á flótta og búa við ótryggt ástand,“ segir Stephen O'Brien, yfirmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna. Fólkið er á flótta eftir að sýrlenska stjórnarhernum tókst að leggja stóran hluta þeirra undir sig um síðustu helgi.

O'Brien segir að fleiri eigi eftir að leggja á flótta ef ástandið breytist ekki. Talan 16 þúsund nær ekki til þeirra íbúa sem höfðu áður flúið Aleppo.

Frakkar hafa farið fram á aukafund í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna ástandsins í borginni. Það er sagt verra um þessar mundir en nokkru sinni áður.

Staðan versnar með degi hverjum. Alþjóðlegar hjálparstofnanir á svæðinu eru aðframkomnar og matarbirgðir eru að klárast. AFP hefur eftir Bettinu Luescher, starfsmanni úthlutunar matarbirgða á svæðinu, að íbúar séu sendir „hægt og örugglega til helvítis“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert