Abdeslam neitar enn að tjá sig

Salah Abdeslam.
Salah Abdeslam. AFP

Salah Abdeslam, sem er grunaður um að hafa átt aðild að hryðjuverkaárásunum í París, neitaði í dag að svara spurningum dómara í fjórða sinn. Abdeslam hefur ekki viljað tjá sig frá því að hann var fluttur frá Brussel til Parísar í apríl.

Lögmenn Abdeslam tilkynntu í síðasta mánuði að þeir hefðu sagt sig frá málinu þar sem skjólstæðingur þeirra hefði neitað að svara spurningum um atburðina 13. nóvember 2015, þegar hryðjuverkamenn myrtu 130 manns víðs vegar í París.

Einn þeirra, Frank Berton, sagðist ekki telja að Abdeslam hygðist nokkurn tímann tjá sig um málið. Þá sögðu lögmennirnir að líklega væri hinn grunaði að mótmæla því að vera hafður undir stöðugu eftirliti í fangaklefa sínum.

Hlutverk Abdeslam í árásunum liggur ekki ljóst fyrir en hann er talinn hafa séð um skipulagningu þeirra, sem fór fram í Brussel. Hann sagði rannsakendum í Belgíu að hann hefði haft í hyggju að sprengja sig upp við leikvanginn Stade de France, en hætt við.

Hinn fyrrverandi lögmaður Abdeslam, Sven Mary, sagði í samtali við hollenskt dagblað fyrr í mánuðinum að Abdeslam hefði gerst enn róttækari eftir að hann var handtekinn; safnað skeggi og gerst „sannur bókstafstrúarmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert