Fall Aleppo ekki endalok uppreisnarinnar

Hlutar Aleppo eru rústir einar eftir loftárásir og sókn stjórnarhersins.
Hlutar Aleppo eru rústir einar eftir loftárásir og sókn stjórnarhersins. AFP

Aðalsamningamaður stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi segir fall Aleppo í hendur stjórnarhers Bashars al-Assad forseta ekki þýða endalok uppreisnarinnar gegn honum. Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC segir hann vonir um friðarsáttamála fjarlægari.

Stjórnarherinn er kominn langt með að ná fullum yfirráðum yfir Aleppo sem hafði verið á valdi uppreisnarmanna frá árinu 2012. Þúsundir íbúa borgarinnar flúðu harða bardaga þar um helgina. 

George Sabra, aðalsamningamaður stjórnarandstöðunnar, segir við BBC að Aleppo sé mikilvæg fyrir uppreisnina en borgin sé ekki síðasta vígi hennar.

„Í augnablikinu eru svo margir staðir á valdi Frjálsa sýrlenska hersins,“ segir hann. 

Aðgerðir stjórnarhersins með stórfelldum loftárásum á borgina og síðan stórsókn hermanna hafi orðið til þess að enginn geti hugsað um friðarumleitanir.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að uppreisnarmennirnir hafi tapað tólf hverfum borgarinnar, um 40% af yfirráðasvæði þeirra. Rússneskar herþotur eru sagðar hafa aðstoðað við aðgerðir stjórnarhersins í Aleppo.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert