Frumbyggjarnir fara hvergi

Bandarískir frumbyggjar mótmæla framkvæmdum við Dakota Access-olíuleiðsluna.
Bandarískir frumbyggjar mótmæla framkvæmdum við Dakota Access-olíuleiðsluna. AFP

Þrátt fyrir að yfirvöld hafi krafist þess að þeir hafi sig á brott ætla frumbyggjar og mótmælendur að halda kyrru fyrir í Norður-Dakóta þar sem þeir hafa barist gegn framkvæmdum við umdeilda olíuleiðslu. „Við erum hérna til langframa,“ segir Chase Járnaugu frá Standing Rock-ættbálknum.

Verkfræðideild Bandaríkjahers hefur sagt frumbyggjunum að lokað verði fyrir aðgang að alríkislandi á svæðinu frá og með 5. desember. Þeir sem verði eftir gætu átt saksókn yfir höfði sér. Yfirvöld hafa síðan dregið í land og neitað því að fólk verði flutt af svæðinu með valdi.

Frumbyggjarnir telja olíuleiðsluna geta mengað drykkjarvatn og spillt menningarlega verðmætum stöðum þeirra.

Frétt Mbl.is: Frumbyggjum sagt að hafa sig á brott

Jack Dalrymple, ríkisstjóri Norður-Dakóta, hefur einnig sagt mótmælendunum að hafa sig á brott vegna þess að vetur er genginn í garð. Skýlin sem þeir hafi hafst við í hafi ekki verið skoðuð eða samþykkt og það veki áhyggjur um almannaöryggi. Viðbragðsaðilar bæru ekki lengur ábyrgð á að koma fólki á svæðinu til aðstoðar.

Lögreglumenn hafa beitt táragasi, skotið gúmmíkúlum og sprautað vatni á frumbyggjana og aðra mótmælendur með háþrýstidælum í köldu veðri til að dreifa hópnum. Skerfarinn í Morton-sýslu sakar mótmælendur um að kveikja elda á meðan lögreglumenn reyndu að tvístra þeim.

Dave Archambault, höfðingi Standing Rock-ættbálksins, segir ásakanirnar rangar og það séu lögreglumenn sem hafi farið offari.

„Það eru þeir sem hafa farið fram með ofstopa. Það eru þeir sem eru að nota vopn,“ segir hann.

Járnaugu segir að hótanirnar um handtökur sem fyrst voru settar fram hafi vakið upp minningar hjá frumbyggjunum um hvernig stjórnvöld hafa komið fram við þá í gegnum tíðina.

„Það eru ríkisstofnanir að reyna að gera okkur að yfirgangsfólki á okkar eigin landi og hóta að refsa okkur, ákæra okkur fyrir glæpi og mögulega smala okkur saman ef við snúum ekki aftur á verndarsvæðið,“ segir hann við CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert