Hefja viðskiptaviðræður við Noreg

Ljósmynd/Norden.org

Viðræður um viðskipti á milli Noregs og Bretlands eftir að síðarnefnda landið yfirgefur Evrópusambandið hefjast í desember. Þetta upplýsti Sarah Gillett, sendiherra Bretlands í Noregi, á viðskiptaráðstefnu sem fram fór í Ósló, höfuðborg Noregs, í gær.

„Það sem er virkilega mikilvægt [í samskiptum Noregs og Bretlands] er upphaf viðskiptaviðræðna sem við gerum ráð fyrir að hefjist í næsta mánuði,“ sagði sendiherrann samkvæmt frétt Reuters. Rifjað er upp að Noregur hafi tvisvar hafnað inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu og hafi viðskiptatengsl við sambandið í gegnum EES-samninginn.

Samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi í júní að yfirgefa Evrópusambandið. Bresk stjórnvöld hafa síðan unnið að því að undirbúa formlegar viðræður við sambandið um úrsögn landsins úr sambandinu en stefnt er að því að þær hefjist í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert