Krefjast margfaldra lífstíðardóma

AFP

Tyrkneska ákæruvaldið hefur farið fram á að að næstum 50 meintir skipuleggjendur tilræðis gegn Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, verði dæmdir í margfalt lífstíðarfangelsi.

Tilræðið er sagt hafa átt sér stað í Marmaris, í aðdraganda valdaránstilrauninnar í landinu.

Forsetinn, sem var í fríi ásamt fjölskyldu sinni þegar fregnir bárust af valdaránstilrauninni, hraðaði sér til Istanbúl og sagðist hafa verið 15 mínútum frá því að vera myrtur.

Fjörutíu og sjö hafa verið ákærðir fyrir 17 ólíka glæpi, þeirra á meðal „tilraun til að ráða forsetann af dögum“. Fjörutíu og fjórir eru í haldi en þrír á flótta.

Ákæruvaldið hefur farið fram á þeir verði allir dæmdir í sexfalt lífstíðarfangelsi.

Að sögn tyrkneskra yfirvalda var hið fyrirhugaða tilræði lykilþáttur í tilraun uppreisnarmanna til að ná völdum. „Ef ég hefði dvalið 10 eða 15 mínútur í viðbót þar, þá hefði ég verið myrtur eða fangaður,“ sagði Erdogan um flóttann frá Marmaris í viðtali við CNN.

Um 37.000 hafa verið handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar, sem sumir segja að hafi verið sett á svið. Réttarhöld yfir þeim sem hafa sætt ákærum hefjast í lok árs eða byrjun næsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert