Skotar skoða ókeypis fóstureyðingar fyrir Norður-Íra

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. AFP

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir að hún sé að kanna möguleikann á að norður-írskar konur fái aðgang að ókeypis fóstureyðingum í Skotlandi. Fóstureyðingar eru ólöglegar á Norður-Írlandi nema þegar meðganga ógnar lífi móður.

Opinbera heilbrigðisþjónustan (NHS) hefur fram að þessu neitað að greiða fyrir fóstureyðingar norður-írskra kvenna sem fara yfir til Bretlands til að fá þjónustu. Sturgeon sagði í opinberri heimsókn í Dublin í dag að heimastjórnin myndi ræða við skoska NHS sem gæti gert norður-írskum konum að gangast undir meðferðina þar án endurgjalds.

Áætlað er að um tvö þúsund konur þurfi að nurla saman fé til að komast í fóstureyðingar á einkastofum og sjúkrahúsum á Englandi. Lítill vilji er á meðal stjórnmálaflokka á Norður-Írlandi til að rýmka lög um fóstureyðingar. Frumvarpi um að leyfa fóstureyðingar þegar meiri háttar fósturgalli er til staðar eða þegar kona verður þunguð eftir nauðgun var hafnað fyrr á þessu ári. 

Hæstiréttur Englands ígrundar nú mál stúlku sem þurfti að fara til Englands þegar hún var fimmtán ára til að binda endi á meðgöngu. Hún krefst þess að neitun NHS að greiða fyrir fóstureyðingar norður-írskra kvenna verði hnekkt.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert