Trump telur loftslagsvísindi enn „þvætting“

Donald Trump og Reince Priebus.
Donald Trump og Reince Priebus. AFP

Svo virðist sem að Donald Trump hafi ekki verið að öllu leyti heiðarlegur þegar hann sagði New York Times í síðustu viku að hann liti á loftslagsmál með opnum huga. Starfsmannastjóri hans segir að Trump telji loftslagsvísindi enn þá „að mestu leyti óttalegan þvætting“.

Kjör Trump sem forseta hefur skotið vísindamönnum og öðrum þjóðarleiðtogum skelk í bringu vegna ummæla hans um að hann muni draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu sem á að berjast gegn loftslagsbreytingum af völdum manna. Trump hefur endurtekið sagt loftslagsbreytingar vera „gabb“ og skipað þekktan loftslagsafneitara til að sjá um málefni umhverfisstofnunarinnar í aðdraganda valdatöku sinnar. Ráðgjafar hans hafa gefið í skyn að NASA verði látið hætta loftslagsrannsóknum sínum.

Frétt Mbl.is: Bakkar með róttæk kosningaloforð

Því var sumum nokkuð létt þegar Trump virtist aðeins draga í land í viðtali við ritstjórn New York Times í síðustu viku. Þegar hann var spurður hvort hann kæmi til með að standa við hótanir sínar um að segja sig frá Parísarsamkomulaginu sagðist hann nálgast það með „opnum hug“.

Reince Priebus, formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins sem Trump hefur skipað sem starfsmannastjóra Hvíta hússins, staðfesti hins vegar við Fox News á sunnudag að hugur hafi ekki fylgt máli hjá Trump.

„Hvað varðar þetta mál með loftslagsbreytingar, það eina sem hann sagði eftir að hafa verið spurður nokkurra spurninga var að hann muni hafa opinn huga um það en hann er með þessa sjálfgefnu afstöðu sem er að mest af þessu sé óttalegur þvættingur, en hann mun hafa opinn huga og hlusta á fólk,“ sagði Priebus við spyrilinn Chris Wallace.

Frétt Mbl.is: Rista jarðrannsóknaáætlun NASA á hol

„Um hvað snýst þetta eiginlega?“

Viðtalið við New York Times afhjúpaði einnig að Trump virðist hafa litla þekkingu á loftslagsmálum líkt og fleiri félagar hans í Repúblikanaflokknum sem hafa afneitað loftslagsvísindum um árabil þrátt fyrir yfirgnæfandi vísindaleg rök fyrir því að losun manna á gróðurhúsalofttegundum valdi hnattrænni hlýnun.

Þannig sagði Trump ritstjórn blaðsins að loftslagsbreytingar væru „mjög flóknar“ og að hann væri ekki viss um að menn myndu nokkurn tímann fá botn í þær.

„Frændi minn var prófessor við MIT [háskóla] í 35 ár. Hann var frábær verkfræðingur, vísindamaður. Hann var frábær gaur. Og hann var [...] fyrir löngu síðan, hann hafði skoðanir, þetta var fyrir löngu síðan, hann hafði skoðanir á þessu máli. Þetta er mjög flókið mál. Ég er ekki viss um að nokkur muni einhvern tímann vita fyrir víst. Ég veit að við erum með, þeir segja að þeir hafi vísindin öðru megin en á hinn bóginn þá eru þeir líka með þessa hræðilegu tölvupósta sem vísindamenn sendu á milli sín. Hvar var það, í Genf eða einhvers staðar fyrir fimm árum? Hræðilegt. Þar sem þeir voru gripnir, þið vitið, þannig að maður sér það og maður segir, um hvað snýst þetta eiginlega? Ég er algerlega með opinn hug,“ sagði Trump við New York Times.

Virtist hann vísa til þess þegar tölvuþrjótur braust inn í vefþjón loftslagsrannsóknahóps Háskólans í Austur-Anglíu árið 2009 og stal þaðan fjölda tölvupósta loftslagsvísindamanna. Hópar loftslagsafneitara birtu í kjölfarið valdar setningar úr tölvupóstunum sem teknar voru úr samhengi sem áttu að sýna að vísindamenn stæðu í samsæri til að falsa gögn um hnattræna hlýnun. Fjöldi rannsókna hefur leitt í ljós að enginn fótur var fyrir þeim ásökunum.

Frétt Huffington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert