Vaxandi stuðningur við Íhaldsflokkinn

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breski Íhaldsflokkurinn hefur 44% fylgi samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins ICM fyrir breska dagblaðið Guardian. Verkamannaflokkurinn er sem fyrr næststærsti flokkurinn og nýtur 28% fylgis samkvæmt könnuninni.

Fram kemur í frétt blaðsins að Íhaldsflokkurinn bæti við sig tveimur prósentustigum frá fyrri skoðanakönnun á meðan fylgi Verkamannaflokksins standi í stað. Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) er þriðji stærsti flokkurinn með 12% fylgi sem er einu prósentustigi meira en í síðustu könnun fyrirtækisins. Frjálslyndir demókratar mælast með 7% eða tveimur prósentustigum minna fylgi en síðast. Græningjar hafa 4% og bæta við sig prósentustigi.

Fylgi Íhaldsflokksins nú er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með í skoðanakönnunum ICM frá því í október 2009. Einu prósentustigi munar að fylgið sé jafnmikið og þegar það hefur mælst hæst í könnunum fyrirtækisins. Íhaldsflokkurinn mælist hæstur í nær öllum samfélagshópum sem kannaðir voru og þar með talið í nær öllum aldursflokkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert